Krossgátuhnoss

Æ þetta var svo notalegur dagur. Hef verið heima að væflast um á náttsloppnum og sötra kappútísnó. Fékk leikfélaga í heimsókn, m.a.s. strák.

Hitti hann í hendingu í gær, manninn sem veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga, og stakk upp á leik.

-Þú kemur til mín í morgunkaffi og við kíkjum á krossgátuna. Ef þú leysir hana á undan mér skal ég nudda þig. Ef ég verð á undan siturðu hjá mér eitthvert kvöldið í vikunni og talar við mig þar til ég sofna. Ef okkur tekst ekki að leysa gátuna fyrir kvöldið sláum við þessu bara upp í kæruleysi og ríðum.

Hann sagðist nú ekki gera ráð fyrir að mæta þar sem hann hefði hugsað sér að liggja í þynnku fram eftir degi. Búllsjitt rök; auðvitað er engin ástæða til að hanga einn yfir krossgátu þegar félagsskapur býðst. Varla er hann frábitinn því að eyða tíma með mér, allavega hefur hann komið með mér í hádegismat, á listasýningar og spilað við mig skrabbl án mikilla eftirgangsmuna. Hugsanlega var ástæðan sú að hann vildi ekki taka séns á því að við næðum ekki að klára gátuna áður en hann þyrfti að mæta í vinnuna og þar sem hann er haldinn karlmennskuheilkenninu er hann væntanlega ófær um að segja hreint út að hann langi ekki í bælið með mér. Nema hann vilji það svosem alveg en sé bara svona góður og staðfastur drengur sem lætur ekki fallerast svo auðveldlega. Eða hræddur við mig, ég er náttúrulega frekar ógnvekjandi.

Jæja, hvað um það, ég gekk aðeins á eftir honum og það varð nú úr að hann kom eftir allt saman. Auðvitað hespuðum við gátunni af yfir kaffibolla svo það verður víst ekkert fallerí í þessari viku en við réðum hana eiginlega í sameiningu svo það má víst deila um hvort ég eigi inni svæfingu hjá honum eða hann nudd hjá mér.

Skrýtið. Þótt ég hafi haft mikinn félagsskap af vinkonum mínum síðustu vikur, langar mig samt líka að leika við stráka en í augnablikinu vantar mig samt ekki bólfélaga aldrei þessu vant. Vantar bara einhvern sem talar mig í svefn. Ég er löngu orðin sátt við að vakna ein, get alveg sofið ein í rúmi og allt það en öll þessi ár hef ég aldrei vanist því almennilega að sofna í þögn. Pysjan hefur reyndar komið inn til mín nokkuð oft undanfarið en hamingjan hjálpi mér ef ég leyfði mér að sofna út frá þeim samræðum. Þá er ég hrædd um að margra mánaða vinna væri unnin fyrir gýg.

Best er að deila með því að afrita slóðina