Bara heilbrigt

Ég hef haft svo miklar áhyggjur af Pysjunni minni. Hann hefur verið frekar einangraður félagslega alveg síðan hann var 8-9 ára. Hann eignaðist ekki stóran vinahóp þegar hann var krakki, átti kannski 1-2 vini og ekkert endilega krakka sem hann hafði greiðan aðgang að. Hann var bara einn ef þeir voru ekki til staðar og hafnaði samskiptum við önnur börn nánast algerlega. Síðustu 2 árin hefur hann bókstaflega engan félagsskap haft af skólafélögunum sínum utan skólans og í raun ekki umgengist jafnaldra sína neitt.

Þeir Snorri voru svo góðir saman þegar þeir voru litlir og það var alltaf ægileg tragedía að þeir skyldu ekki vera í sama skóla. Við Sigrún reyndum að lofa þeim að vera saman um helgar svo þeir hefðu einhvern félagsskap en eftir að Snorri flutti suður var Pysjan allt of mikið einn. Við héldum að þeir tækju því fagnandi þegar við fluttum í næsta nágrenni en þeir hafa sáralítið verið saman.

Svo er það nú eitthvað að breytast. Drengurinn hefur hvað eftir annað sagt mér að dramað yfir einangrun hans sé algerlega í hausnum á mér, hann bara kæri sig ekki um meiri félagsskap. Samt er það haugalygi og honum leiðist stundum svo mikið að hann tekur vanlíðan sína út á bróður sínum og mér. Greinilegt að honum líður miklu betur eftir að hann fór að vera meira með Snorra. Og ég er farin að halda að ástæðan fyrir einangrun hans sé bara sú að hann eigi erfitt með að finna vini sem hæfa honum. Allavega eru þeir Snorri svolítið spes.

Einhverntíma um daginn gisti Snorri hjá okkur. Ég vaknaði um miðja nótt og fór fram, þeir voru þá ennþá á fótum og í tölvunni. Mér datt helst í hug að þeir væru í einhverjum leik eða að skoða berrassamyndir. En nei, þeir voru að taka greindarpróf. Sátu með ensku orðabókina mína og hjálpuðust að við að leysa þrautirnar.

Síðustu nótt gisti svo minn hjá Snorra. Þegar ég hringdi í hann um hádegið til að tékka á því hvort hann vildi koma með okkur Pólínu í Bláa lónið (eins og við höfðum talað um), voru þeir félgar í strætó á leiðinni inn í Reykjavík. Gott mál hugsaði ég bara. Þegar Haukur hringdi í mig um 5 leytið var hann ekki kominn heim og Haukur var hræddur um hann. Ekki vanur því að litli bróðir sé á þvælingi utan dyra án fylgdar fullorðinna. Ég lýsti yfir mikilli ánægju með að hann ætti sér eitthvert líf utan heimilis og skóla, sagði Hauki að ég hefði ekki áhyggjur af því að þeir hefðu leiðst út í krakkneyslu um hádegi á lausgardag, þeir væru áreiðanlega að skoða strákadót í búðum eða í spilakössum.

Hann kom heim um 6 leytið. Ég spurði hvað þeir hefðu verið að gera um daginn. Jú þeir höfðu bara brugðið sér bæjarleið til að skoða listasýningar. Alltaf hægt að fara í lónið en sýningunni hans Magga í Kling & Bang ætti að ljúka á sunnudag svo það var ekki seinna vænna, sagði hann.

Svo ég er að velta því fyrir mér hvort allar þessar áhyggjur af því að hann verði félagslegur öryrki sem þarf að fá RauðaKross heimsóknir til að verða ekki algerlega mállaus, séu kannski óþarfar. Kannski bara ekkert margir í hans bekk sem hann á beinlínis samleið með. Ef út í það er farið er hefð fyrir jaðarfólki í fjölskyldunni, ég er bara á einhverjum allt öðrum jaðri en hann.

Best er að deila með því að afrita slóðina