Pysjan er að fá málið

Pysjan er tekinn upp á því að setjast á rúmstokkinn hjá mér til að spjalla við mig á kvöldin. Jess! Ég vann!

Mér finnst stundum óþarflega mikið til í þeirri speki að góðir hlutir gerist hægt. Ég er búin að ala þennan dreng upp í 16 ár og það er nú fyrst sem við erum að verða vinir. Ekki það að ég hafi ekki reynt, drottinn minn dýri hvað ég hef lagt mig fram en við höfum aldrei getað haldið uppi löngum samræðum um hluti sem skipta máli.

Ég hef stöku sinnum reynt að þvinga hann til að tala við mig en það hefur bara endað í leiðindum. Yfirleitt hef ég því farið svipaða leið að honum og pabbi fór að mér til þess að reyna að halda einhverskonar tilfinningatengslum, eiga nærveru án mikilla samskipta.

Þegar ég flutti til pabba var ég á aldur við Pysjuna. Við pabbi áttum álíka vel saman og oíla og vatn og höfðum ekkert að segja hvort við annað, þögðum yfir máltíðum og þögðum í bílnum. En pabbi brást við. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en nokkrum árum síðar hvers vegna hann dró mig á hverja einustu bíómynd sem var sýnd, fór með mig á leiksýningar, tónleika, karate sýningar, vörukynningar… Hann hafði mig með í öllum ákvörðunum og þegar við fluttum tók hann mig alltaf með til að skoða íbúðir, beið eftir mér frekar en að fara einn. Ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar, hvað það er sem gerist en við pabbi urðum með tímanum ekki bara málkunnug heldur náin þótt sé engin rökleg skýring á því.

Ég nýtti mér aðferðafræði pabba. Þegar Pysjan var lítill lék ég við hann leiki á borð við „fagur fiskur í sjó“, kenndi honum kvæði og söng með honum. Hann hafði svo gaman af að syngja og þótt við hefðum sjaldan um neitt að tala voru það góðar stundir. Svo þegar hann fór í mútur hætti hann algerlega að syngja og hefur ekki tekið það upp aftur nema þegar hann heldur að hann sé einn heima. Ég lenti í vandræðum þegar þessi stóri þáttur í tengslum okkar bara hvarf en brást við með því að lesa fyrir hann þótt hann væri orðinn svona stór. Svo hætti ég því. Tók ekki beint ákvörðun, þetta bara lognaðist einhvernveginn út af og ég sá ekki fyrr en mörgum mánuðum síðar hvað ég hafði gert stór mistök.

Ég lofaði sjálfri mér þegar ég flutti hingað inn að finna fleiri leiðir til að eiga með honum sérstakar stundir þótt við eigum svona fátt sameiginlegt. Ég fór að lesa fyrir hann aftur, honum fannst það svolítið asnalegt fyrst en hann nýtur þess og er nú farinn að koma með bókina að fyrra bragði. Við höfum líka farið á fjölda tónleika, bara tvö og ég hef notað tækifærið þegar hinir krakkarnir eru ekki heima til að horfa með honum á íslenskar kvikmyndir en þær virðast höfða mun sterkar til hans en aðrar. Líklega drunginn sem hann finnur sig í. Og nú er hann farinn að tala við mig líka. Kvöld eftir kvöld. Að fyrra bragði og lengi, um hluti sem skipta máli. Þetta er það merkilegasta sem hefur komið fyrir mig lengi, lengi, lengi.

Best er að deila með því að afrita slóðina