Sýndarveruleikaraunsæi

Ég er búin að bæta Yfirnorn Naflalóar á tenglalistann.

Reyndar hélt ég lengi því plani að setja ekki inn tengla á aðra en þá sem koma við sögu en þar sem flestir þeirra sem hafa fengið tengil hjá mér eru óttalegir bloggletingjar og ég hef auk þess fundið nokkra snillinga sem eru svo skemmtilegir að ég lít á síðurnar þeirra vikulega eða oftar, er ég að endurskoða þessa stefnu.

Vandamálið með Yfirnornina er að ég veit ekki alveg hvar ég á að staðsetja hana. „Aðrir snillingar“ eru fólk sem ég hef aldrei séð. „Kynlegir kvistir“ eru fólk sem kemur beint við sögu. Yfirnornin er hvorugt. Ég hef lítil bein samskipti átt við hana en hún er samt í kunningjahópnum. Set hana því með kynlegu kvistunum. Verð svo bara að vona að hún komi í heimsókn svo kerfið hjá mér verði í samræmi við kenninguna.

Svo finnst mér eiginlega svindl að sumir þeirra sem ég á regluleg samskipti við eru svo menningarsnauðir að blogga ekki. Spurning hvort maður eigi ekki að koma sér upp tengli með ljósmyndum af þeim eða einhverju öðru sniðugu til að „raungera“ þá. Held að fæstir geri sér grein fyrir því að við bloggarar erum að innleiða nýja bókmenntastefnu „sýndarveruleikaraunsæi“. Ég held að heitið sé komið frá Ara Páli. (Hvað er annars orðið af þeim góða og skemmtilega dreng, (eða flokkast hann kannski sem „maður“ síðustu árin?) sem ég hef ekki séð alltof lengi) Hann notaði það um bók sína Nediam, sem er bráðskemmtileg lesning en stendur fráleitt undir því að flokkast sem sýndarveruleiki. Það gera hinsvegar margar vefbækur.

Í framtíðinni verður bloggbókin flokkuð sem alþýðubókmenntir og róta bókmenntastefnunnar (sýndarveruleikaraunsæis) verður leitað á bloggsíðum. Ég er að velta því fyrir mér hvort sé ekki rétt, gott og nauðsynlegt að einhver taki að sér að gerast Árni Magnússon nútímans og vista eins margar vefbækur og mögulegt er á diskum. Það hlýtur nefnilega að koma að því að Blogger eða einhver önnur bloggþjónusta verður fyrir áfalli, allt draslið hrynur og bækurnar hverfa, pomm! Allt týnt og glatað að eilífu. Kannski mest bara þvaður um það hvað viðkomandi át í morgunmat eða hvað hann er pirraður á umferðinni og blabla en líka inn á milli listaverk og það mestu máli skiptir SAGAN -heimild um líf og hugsanagang alþýðunnar.

Kannski ætti ég að sækja um styrk til RANNÍS og verða Árni Magnússon þegar ég orðin stór. Geri það. Ef einhver annar verður búinn að því á undan mér er það bara ein sönnun þess að einhverjir þeirra sem lesa sápuna mína eru snillingar og þá get ég verið ánægð með það. Win/win situation.

Er að fara með Pólínu í lónið. Loksins. Þetta verður góður dagur.

Best er að deila með því að afrita slóðina