Sjálfum sér til verndar

-Til hvers að sofa hjá einhverjum án þess að meina neitt með því þegar er svona miklu skemmtilegra að hafa tilfinningar með í spilinu? spurði hún og þar sem mér er málið skylt hlýt ég að svara.

-Vegna þess ljúfan mín dúfan að þegar upp er staðið fer það ekki eins hryllilega illa með þig.

Jamm, hitt er betra. Svo langt sem það nær. Rétt á meðan það varir. Rétt á meðan þú ert svo djúpt sokkin í ástina að þig langar ekki einu sinni í súkkulaði. En einn daginn vaknarðu og áttar þig á því að þessi skelfilegi dagur þegar þú fyrst gerðir þér ljóst að það var aldrei nein ást, bara einhver tímabundin geðsýki hjá vininum eða þá að hann ruglaði saman ástinni og þægindakenndinni af því að hafa greiðan aðgang að þjónustu sem hann fær ekki lengur hjá mömmu sinni; að sá dagur var ekki einn einstakur atburður, áfall sem átti að bera þig áfram til þroska og visku, heldur rauði þráðurinn í ævisögu þinni.

Þú gefst auðvitað ekki upp við svo búið. Þú trúir því ennþá að jafnvel þótt þetta helvítis kvalræði sé orðinn fastur liður í tilverunni sé hægt að snúa því við. Þú hefur líklega gert eitthvað rangt. Eitthvað sem má breyta. Vinir og vandamenn geta oftast gefið þér skýringar, a.m.k. í fyrstu 10 skiptin sem þetta gerist. Þú hefur líklega fallið fyrir rangri týpu (jafnvel þótt þínir menn eigi ekkert sameiginlegt annað en að hafa verið með þér). Þú hefur ekki verið nógu góð við þá. Nei, hvaða vitleysa þú hefur verið of góð við þá. Þú gerir of miklar kröfur. Menn bera enga virðingu fyrir konum sem gera engar kröfur. Þú hefur bara verið of ákveðin í því að vilja hann. Þú hefur ekki sýnt honum nægan áhuga, hann hefur ekki treyst því að þér sé alvara. Þú hefur bara ekki sýnt nógu mikið frumkvæði. Þú misskilur þetta, karlmaðurinn er í eðli sínu veiðimaður, hann missir áhugann ef þú sýnir frumkvæði.

Málið er að það er alveg sama hvað þú reynir, þegar upp er staðið er ástin ekkert til að stóla á. Í rauninni ekkert annað en dóp. Það er ekki hægt að lifa eðlilegu lífi með henni og þegar þú færð ekki skammtinn þinn verðurðu örvæntingarfull og prófar sama efni hjá einhverjum öðrum. Vaknar svo upp…

Þessvegna, sjálfri þér til verndar, hættirðu að lokum að rugla saman ást og kynlífi. Þegar allt kemur til alls á þetta tvennt ekkert endilega samleið. Ef svo væri þrifist ekki allur þessi kynlífsiðnaður og fólk héldi fremur tryggð við maka sinn en foreldra, systkini og börn. Reyndin er sú að blóð er þykkara en vatn, allsstaðar í veröldinni. Það er vel hægt að lifa án rómantískrar ástar.

Þú lærir að aftengja. Það er undir persónugerð þinni komið hvort það gerist meðvitað eða ómeðvitað en til þess að halda geðheilsu þinni verður það einmitt það sem þú gerir á endanum. Og það er gott. Það eyðileggur ekkert fyrir þér möguleikann á meira tilfinningarugli, verndar þig bara frá því að sökkva ómeðvitað í svoleiðis bull. Forðar þér frá því að verða fórnarlamb. Það er auðvitað ekki sérlega kvenlegt að vera ekki fórnarlamb en það er betra líf.

Þér finnst þetta líklega kaldranaleg afstaða. Þú heldur áreiðanlega að manneskja sem getur haldið slíku fram hljóti að eiga afskaplega bágt. Það er misskiliningur mín fagra og magra. Hamingjan er ekki alltaf ótukt, hún bara þrífst ekki í einhverju dóprugli. Þótt dóp sé betra en hamingjan. Svona rétt á meðan víman varir.

Svo næst þegar þetta gerist; næst þegar þú áttar þig á því að það var ekki raunverulegt, að þú varst bara allt í plati, að þú varst bara dópið hans og nú þarf hann að fara að gera eitthvað af viti, prófaðu þá að slíta þetta tvennt í sundur, sofa hjá einhverjum sem þér er nákvæmlega sama um.

Þér finnst það rangt. Finnst eitthvað ljótt við að fróa sér á líkama annarrar manneskju, jafnvel þótt viðkomandi sé samþykkur. Hvar er fórnarlambið í þeim glæp? ég bara spyr. Ætli þér finnist ekki bara svona ótrúlegt að fólk geti yfirhöfuð slitið ástina úr tengslum við kynlífið og að slík sambönd hljóti alltaf að enda með því að einhver verði sár? Líklega heldurðu það og það er hreint ekki heimskuleg ályktun þótt hún sé röng. Við erum svo fær í þeirri list að ljúga að sjálfum okkur. Getum svo lengi talið okkur trú um að forsendur gjörða okkar séu einhverjar allt aðrar en þær raunverulega eru. Í því liggur hættan. Þessvegna skaltu aldrei stunda skuldbindingarlaust kynlíf með einhverjum sem þér líkar virkilega vel við. Veldu skíthæl. Einhvern sem þú veist að mun fara illa með þig ef þú fellur fyrir honum. Einhvern sem er auðvelt að fyrirlíta. Einhvern sem vill örugglega ekkert með þig hafa annað en að fróa sér á þér.

Ó hvað þetta er kuldalegt! Til hvers þá að vera að þessu á annað borð? Væri ekki bara minna vesen að fróa sér? Jú, rétt er það. Miklu minna vesen. Kynlíf hlýtur að vera manninum nauðsynlegt fyrst hann leggur á sig vesenið í kringum það. Það er að vísu mun minna vesen að eiga lífrænt kynlífsleikfang en elskhuga en það er vesen samt. Jæja vinan, ég er eldri og viturri en þú og nú skal ég segja þér hvers vegna ég hef staðið í slíku veseni.

Ég er viss um að þú manst ennþá eftir merkilegustu sálfræðirannsóknunum sem við lærðum um í framhaldsskóla. Pabbló og Pésa og alla þá. Þú manst líklega eftir einni af fyrstu þekktu rannsóknunum á geðtengslamyndun apa. (Ég man ekki í augnablikinu hver gerði þá tilraun en það skiptir nú ekki meira máli en svo að ég nenni ekki að fletta því upp.) Nokkrir litlir apaungar voru hafðir í búri þar sem þeir fengu mjólkina sína úr víravirki. Í búrinu var einnig mjúk brúða með andlit en hjá henni var enga mjólk að fá. Aparnir héldu sig undantekningalaust nær mjúku brúðunni. Þeir þroskuðust ekki eins vel og apar sem alast upp hjá móður sinni en þeir urðu heldur ekki geðveikir. Meðan þeir höfðu brúðuna hegðuðu þeir sér á allan hátt eins og ungbörn í návist móður, sýndu glögg merki um óhamingju og öryggisleysi ef „mjúka mamman“ var tekin frá þeim og fengust ekki til að leika sér eða skoða nýja hluti. „Vírmamman“ gat alls ekki komið í staðinn, jafnvel þótt hún fullnægði líkamlegum þörfum þeirra. „Mjúka mamman“ kom hinsvegar næstum því í staðinn fyrir alvöru mömmu.

Þessvegna, mín kæra, er meira gagn af einu lífrænu kynlífsleikfangi en af öllum titrarasettum veraldar. Jafnvel þótt lífræna leikfangið tali ekki einu sinni við þig. Ef það hefur nógu langa handleggi til að halda utan um þig þá getur skuldbindingarlaust kynlíf bjargað geðheilsu þinni. Og þess. Manneskjan er nefnilega að hálfu leyti villidýr og að hálfu leyti barn. Bara ponkulítið apakríli sem þrífst ekki án snertingar en getur svosem plumað sig bærilega án „raunverulegrar“ ástar.

Ég get með góðri samvisku mælt með skuldbindingalausu kynlífi. Það er auðvitað ekkert eins gott og að vera með einhverjum sem manni þykir vænt um en það er skárra en ekkert og maður sleppur við að leggjast í rúst þegar því lýkur. Maður losnar við að verða fórnarlamb. Gættu þín bara á einu þegar þú áttar þig á þessu. Gættu þess að sá sem þú notar til að fróa þér á sé örugglega að þessu á sömu forsendum og þú. Karlmenn eru nefnilega ekki allir skíthælar þótt sé oft frekar erfitt að þekkja þá úr. Þeir eru alveg jafn duglegir að ljúga að sjálfum sér og við og halda stundum að riðlirí úti um hvippinn og hvappinn eigi að vera þeim eitthvað eðlilegra en okkur. Þeir eiga líklega erfiðara með það en við að átta sig á því hvort þeim er alvara eða ekki. Þeir geta orðið fórnarlömb jafn auðveldlega og við og góðar konur meiða ekki leikföngin sín viljandi. Vertu samt óhrædd við að prófa ef þú hefur ekki ástæðu til annars en að ætla að honum sé sama um þig. Þegar allt kemur til alls verður vinurinn að taka ábyrgð á því sem hann segir um sjálfan sig og langlíklegast er að hann sé bara pínulítill apaungi. Hann þarfnast þín ekki sem persónu, vantar bara brúðu til að kúra hjá.

Ég veit ekki hvort þú trúir mér en sannleikurinn er sá að það er nú bara þessvegna sem fólk stendur í svona falleríi þótt það sé ákveðið í því að verða ekki ástfangið. Það skaðar mann minna.

Best er að deila með því að afrita slóðina