Helgi framundan

Hvernig stendur á því að maður trúir á kenningu þegar henni er stöðugt haldið fram sem heilögum sannleika enda þótt reynsla manns stangist á við hana?

Dæmi 1:

Kenning: Ef þú ferð aldrei yfir löglegan ökuhraða lendirðu ekki á rauðu ljósi nema í fjórða hvert skipti. Ljósin eru nefnilega „stillt þannig“.

Reynsla: það er alveg sama hvort ég ek hægt eða hratt, ég þarf að meðaltali að bíða á öðrum hverjum ljósum.

Og hvernig samræmist það venjulegri rökhugsun að hægt sé að stilla ljósin þannig að maður komi að grænu ljósi í 75% tilvika? Þurfa þá ekki þeir sem eru að fara aðrar leiðir að bíða á rauðu jafn oft og ég næ grænu?

Dæmi 2:

Kenning: Það er óheppilegt að sýna af sér stjórnleysi og frekju ef þú vilt fá einhverju framgent. Heilladrýgra er að leysa sín mál með diplómatískum aðferðum.

Reynsla: Þeir sem fá frekjukast yfir slælegri afgreiðslu í „kerfinu“ fá það sem þeir vilja miklu fyrr en hinir sem bíða og brosa. Óþekktargrísir njóta forréttinda í skóla og sjálf hef ég þá reynslu að hlutirnir ganga mun hraðar og betur fyrir sig ef mér rennur í skap, hvort sem um er að ræða samskipti við opinberar stofnanir eða tilraunir til að kúga syni mína til hlýðni.

Gæti haldið áfram lengi en nú er komin helgi:

kenning: um helgina verður tími til að þrífa íbúðina, taka til í geymslunni, bóna bílinn, skrifa smásögu, hitta alla vini mína, vinna aukavinnu, fara á djammið, elda lambahrygg, fara með Pysjunni á tónleika, skoða málverkasýningu, horfa á sjónvarpið, setja mig inn í það sem hefur verið að gerast í pólitíkinni síðustu vikur, baka köku, fara í ljós, verða falleg, sofa hjá karlmanni, lesa, rifja upp eitthvað af enska orðaforðanum mínum sem er að týnast á ógnarhraða, sofa út, hringja í systur mína, fara yfir bókhaldið…

reynsla: vinn aukavinnu, næ þvottinum niður, panta pizzu)

og ég er búin að fara í dekurbað og drekka 2 bjóra. Ætla að draga Spúnkhildi með mér á Ampop tónleika í Stúdentakjallararanum þar sem ég mun aukinheldur veita vonbiðlum og öðrum aðdáendum áheyrn, með yndisfrítt andlit mitt smurt silkikreminu góða sem Fangóría hin fagra og magra gaf mér af alkunnu örlæti sínu í gær.

Best er að deila með því að afrita slóðina