Rökfimi Pysjunnar

Þegar ég var lítil og vildi ekki makkarónugrautinn minn eða eitthvað álíka ógeð, var pabbi vanur að halda fyrirlestra um beinkröm og önnur einkenni næringarskorts og minna mig á svöngu börnin í Afríku. Ég sem var ekkert vannærð trúði svona passlega á að beinkröm stafaði af skorti á volgum spónamat með mjólkurskán fljótandi ofan á.

Svöngu barna rökin dugðu betur, allavega fékk ég alltaf ægilega sektarkennd yfir því að vilja ekki það sem fyrir mig var sett. Ég náði því að vísu aldrei hvernig það gæti gagnast hungruðum negrakrógum að láta mig kúgast yfir slepjugum makkarónum en núna, 30 árum síðar, stend ég sjálfa mig að því að beita hreint ekki svo ólíkri taktík þegar Pysjan lýsir yfir megnri fyrirlitningu á grænfóðri og vill helst sósuklístraða hamborgara eða pizzu fljótandi í osti og olíu í flest mál.

-Fólk sem borðar ekkert nema kolvetni og fitu verður veikt. Veistu hvað feita fólkið í Bandaríkjunum borðar? Heldurðu kannski að það borði spínat og hýðishrísgrjón? Nei gæskur, það gúllar nefnilega í sig skyndifæði og sælgæti oft í viku og verður ekki bara búmmbúmm tonnhlass heldur líka sykursjúkt og lifrarveikt fyrir aldur fram. Já, barasta!

Pysjan horfir glottandi á mig, og togar skinnið frá beinunum.
-Æ,æ. Aumingja feita fólkið í Ameríku. Það grennist áreiðanlega ef ég ét meira spínat segir hann og gluðar kokteilsósu yfir diskinn sinn.

Best er að deila með því að afrita slóðina