Dæmigert sumar

Byltingin farin austur á land með lítinn prímus og kaffikönnu í bakpoka. M.a.s. með hatt sem er ekki óáþekkur hatti Snúðs í Múmíndal. Pysjan, sem er ekki lengur Pysja, virðist ætla að hafa dvelja sumarlangt í Baunalandi.

Ég er sumsé kona einsömul sem merkir að sumarið er byrjað. Það fór aldrei svo að ég yrði verkefnalaus, þótt liti helst út fyrir að Mammon hefði ákveðið að senda mig í sumarfrí, þvert á móti er allt í drasli heima hjá mér og ég hef ekki ennþá ráðist í það metnaðarfulla verkefni að skila bókhaldinu af mér með einhverju sem nálgast það að geta kallast „með sóma“.

Allt stendur þetta til bóta. Ég er búin að raða niður verkefnum með svefntíma, bloggpásum og m.a.s. matarhléi á hverjum degi. Á sunnudaginn ætla ég að vera í sumarfríi heilan dag. Þá verður bókhaldið farið heim til sín, allt spikk&span hreint á rúminu, sunnudagskrossgáta og kappútsínó og allt verður fullkomið.

Uppdeit

Það er ekki endilega samhengi á milli fréttagnægðar og bloggafkasta. Sem stendur eru aðstæður á þessa leið:

-Sveitamaðurinn er farinn til Danaveldis að smíða minkabúr, Byltingunni til mikillar armæðu. Sagt er að prinsinn brosi hringinn í Baunalandi og hafi aukið orðaforða sinn úr já og nei í jahá, jájá og neeejneii.

-Byltingin er búin að stinga anarkistabibblíunni í bakpoka ásamt hreinum sokkum (ósamstæðum) og tannbursta og hyggst halda austur á land í dag, til að uppræta framkvæmdir við Kárahnjúka eða í versta falli að kalla aldalanga bölvun yfir útsendara Landsvirkjunar.

-Elías truflaði ástargaldurinn minn, en nú er fullt tungl í nótt og mun ég þá gera aðra tilraun. Ennfremur mun ég kalla minniháttar bölvun yfir forkólfa Bílastæðasjóðs. Ekkert rosalegt samt. Bara svona sýnishorn af bölvun eins og t.d. að finna langt svart hár í matum sínum eða að reka við með miklum fnyk og látum í viðurvist fagurra kvenna.

Gullkvörn

Strákarnir mínir gáfu mér flottustu afmælisgjöf sem ég hef nokkurntíma fengið. Töfragrip sem heitir Gullkvörn og fylgja henni tveir Mammonsgaldrar, einn til að redda sér pening í hvelli (ég er búin að prófa hann og það tókst vel) og svo annar til að verða ríkur. Til að hann virki þarf maður reyndar að eiga eignir umfram skuldir svo það er ekki alveg tímabært að láta á hann reyna. Ég hef fulla trú á honum enda eru báðir galdrarnir svo líkir mínum stíl að ef ég vissi ekki betur, héldi ég að ég hefði skrifað þá sjálf.

Það reddast

Þegar ég blogga ekki dögum saman er það undantekningalaust merki um mikla vinnu. Ég reiknaði reyndar með því fyrir einni viku að vinnan væri að snarminnka (og þar með tekjurnar) en það eru ekki örlög mín að vera blönk.

Málarinn er semsagt búinn að vera stuði og ég er besta módel sem hann hefur haft, segir hann. Útilokað að ég nenni að standa í því að sýna afraksturinn á blogger en bráðum, bráðum ætlar Anna að hjálpa mér að setja upp almennilega vefsíðu og listamaðurinn er þegar búinn að gefa góðfúslegt leyfi fyrir birtingu.

Ég þarf samt að fara á stúfana og finna eitthvað meira að gera um leið og ég get verið dagpart frá búðinni. Málarinn hefur ekki grætt krónu á þessum myndum ennþá og getur varla haldið mér á floti mjög lengi. En það reddast. Það eru örlög mín ap reddast. Ég ákvað fyrir margt löngu að hafa það þannig.

Sniff

Æ Elías.

Hjartað í mér sýgur alltaf pínulítið upp í nefið þegar hann fer en kommonsensinn er verulega ánægður.

Og daginn eftir kemur sæti sölumaðurinn í Nornabúðina og spyr hvort ég eigi galdur til að hætta að reykja.

Þetta er greinilega hægt

Keli kom og fór. Öll fjölskyldan kom í heimsókn í Nornabúðina og við áttum mjög ánægjuleg stund saman.

Ég hef aldrei skilið almennilega hvað fólk á við með því að „hafa gaman af börnum“, rétt eins og börn séu einhver ákveðin dýrategund. Börn eru jafn mismunandi og annað fólk og ég hef gaman af því að umgangast skemmtileg börn sem kunna sig en hef lítið úthald gagnvart væluskjóðum og frekjugrísum. Stillt og kurteis börn eru oft hlédræg og feimin en dætur Kela og Linditu eru lifandi sönnun þess að vel er hægt að kenna börnum mannasiði án þess að þau verði bæld og ósjálfstæð. Telpurnar eru opnar og ákafar, áhugasamar um allt sem fyrir augu ber, spyrja mikið og hafa mikið að segja en eru þó svo prúðar að þær snerta ekkert í leyfisleysi og biðja m.a.s. um orðið með því að rétta upp hönd ef margir eru samankomnir.

Bæði Huldu Elíru og Mirjam langaði í sama hálsmenið en það var bara eitt til. Á mörgum heimilum hefði það kostað rifrildi og fýlu fram eftir degi en þessar stelpur leystu málið í algerri friðsemd. Ég hef enga trú á því að svona börn verði til fyrir einskæra heppni. Ég legg því til að foreldrar þeirra hætti að vinna fyrir norska ríkið og taki þess í stað að sér uppeldiskennslu. Þau gætu ferðast um heiminn og notað telpurnar sem auglýsingu. Ég er allavega viss um að margir myndu borga morð og milljón fyrir önnur eins börn.

Garún Garún

Að taka frið og vinsemd fram yfir stríð er ekki það sama og að vera tilbúinn til að láta valta yfir sig.

Þumalputtaregla sem hefur reynst mér vel hljóðar svo:
-Ef ég elska þig færðu tækifæri til að fara illa með mig. Eitt tækifæri. Ef þú notar það verða þau ekki fleiri.
-Ef ég elska þig ekki færðu ekki tækifæri til að fara illa með mig. Þú getur reynt það en þú tekur þá líka afleiðingunum.

Ég mæli eindregið með því að þú takir þennan draugagang út á einhverjum öðrum en mér. En ef þú vilt leiðindi, -þá geturðu fengið þau.

Vatnsþvottaópera

Þegar ég loksins gæti kannski gefið mér tíma til að skrifa, er líf mitt of laust við að vera áhugavert til að hægt sé að leggja það á lesendur. Öðru máli gegnir um sápu og sorgir annarra. Það hreinlega freyðir upp úr á vígstöðvum vina og vandamanna og enn og aftur rekst ég á þessa gömlu þversögn; það sem er í frásögur færandi er of viðkvæmt til að hægt sé að tala um það. Sú staðreynd að ekki færri en fimm manns munu taka þessa færslu beint til sín, segir kannski eitthvað um það hvað ég orðin mikið dramleysiseyland. Það liggur satt að segja við að ég hafi áhyggjur af því hvað líf mitt er áfallalaust. Þetta er eiginlega alls engin sápuópera. Kannski bara vatnsþvottaópera?

Annars lítur út fyrir að vinnuálagið á mér muni minnka á næstunni. Útgjöldin eru samt ekkert að lækka svo ég er ekki ennþá búin að taka kátínukast. Bót í máli að ég hef sjaldan staðið frammi fyrir auðveldara verkefni en því að finna aukavinnu sem er áhugaverðari en bókhald.

Húsfundur

Í gær sat ég stysta (bjánaleg stafsetning) húsfund sem ég hef mætt á síðan ég flutti í blokkina. Hann var ekki nema 70 mínútur. Á fundinum var tekin ein ákvörðun. Ákvörðun um að fresta fundinum.

Meðan hárið er að þorna

Mér líður illa í mannþröng en magadansstelpurnar voru samt þess virði. Helga Braga eins og sveitt fjósakona innan um þessa álfakroppa. Fóstbræður fara henni betur. Kræst hvað mig langar á fleiri námskeið. Ég á m.a.s. nýtt peningabelti sem ég hef aldrei notað.

Hendurnar á okkur eins og frostpinnar, svo við fórum inn á kaffihús og eftir aðeins 40 mínútna setu lykta ég eins og skítahaugur. Fallegi kjóllinn minn sem ég var að nota í fyrsta sinn, kápan, nærfötin og hárið á mér. Frekar írónískt að augnrennsli, andnauð og óþefur skuli vera helstu merki þess að maður hafi orðið fyrir aðkenningu að félagslífi.

En sótthreinsun er lokið og Elías á leiðinni. Yndislegt að þekkja einhvern sem getur deilt með manni rúmi án þess að reka kjánaprikið á sér utan í mann í tíma og ótíma. Ég þarf að vinna minnst 6 tíma á morgun og hef ekki fengið frídag síðan um páska en skuldastaðan stefnir líka hraðbyrði í kökusneið. Handrit að rúnabók tilbúið. Meðvirkni minni við margháttaðri geðsýki hér með lokið. Matarboð annað kvöld.

Þetta eru góðir dagar.

Tilraun til vopnaðs ráns

Í gær kom maður í annarlegu ástandi í Nornabúðina, gaufaði bitvopni upp úr rassvasanum og bað kurteislega um hundraðkall.

Spúnkhildur aftók með öllu að fyrirtækið hefði yfir að ráða hundraðköllum til ölmusugjafa og manngarmurinn paufaðist út, heldur sneypilegur.

Svo kom löggumann og hirti hann. Ég sárvorkenndi greyinu en það er ekki alveg víst að hann hefði mundað kutann af sama hengilmænuhætti gagnvart 12 ára barni eða íbúum elliheimilisins.

Gengisfall

Einu sinni var ég afskaplega hrifin af gáfuðu fólki.

Síðan hef ég smátt og smátt áttað mig á því að sumir þeirra sem sprengja skalann á greindarprófum, eru nánast þroskaheftir á tilfinningasviðinu. Margir auk þess svo útblásnir af innistæðulausri sjálfsánægju að þeim hættir til að vanmeta þá sem þeir skeina sig á.

Það er hættulegt að vanmeta andstæðing sinn en jafnvel ennþá hættulegra að vanmeta þá sem maður þarfnast. Hæfileikar fólks, greindarfar þess og vinnuframlag er ekki alltaf í réttu hlutfalli við gaspurgirni þess. Og músin sem læðist er ekki endilega huglaus eða heimsk.

Eða kannski er það ekki þrautseigja, heldur þörf hins vanmáttuga fyrir að vita sig loksins hinumegin við borðið.

Allt sem þú vilt geturðu fengið en stundum ekki fyrr en fyrr en þú kærir þig ekki um það lengur. Það er ljótur leikur að viðhalda væntingum sálar um eitthvað sem er ekki í boði og verður ekki í boði. Það hef ég aldrei gert og veit að þú myndir ekki gera það heldur. Þessvegna gæti ég treyst þér fyrir sjálfri mér.

Sálufélag er eins og öll önnur félög, eitthvað sem manneskjur búa til.

Þversögn lygalaupsins

Æfingin skapar meistarann. Samt eru þeir sem ljúga mikið ekki endilega góðir lygarar. Reyndar held ég að fyrsta lífsregla góðra lygara sé að ljúga ekki meiru en nauðsynlegt er.

Ég hef mikla reynslu af lélegum lygurum.
Ég veit ekki hvort ég hef reynslu af góðum lygurum, því góður lygari hefur vit á því að láta aðra ekki komast að því hvað hann er góður lygari. Kannski tekst góðum lygara að telja öllum trú um að hann sé lélegur lygari.

Ofnæmi?

Fyrst kenndi ég tilviljunum um en nú hefur gengið á þessum undarlegheitum í næstum 2 ár samfleytt.

Í hvert sinn sem ég kemst í hvíslfæri við karlmann sem hugsanlegt er að ég gæti með góðum vilja orðið ástfangin af, fæ ég líkamleg höfnunareinkenni sem eiga sér enga læknisfræðilega skýringu. Halda áfram að lesa

Ef…

Galdurinn hefur þá borið árangur eftir allt saman? segir maðurinn sem hlustar á hjarta mitt slá en í þetta sinn á hann ekki kollgátuna. Barnlaus maður búsettur í annarri heimsálfu er ekki á óskalistanum, jafnvel þótt það gæti gengið ef gult væri blátt væri rautt.

Varla

Fyrstu tilraunir mínar til ástargaldurs misheppnuðust illilega. Hver maðurinn á fætur öðrum fór úr landi í stað þess að koma hlaupandi til mín. Kannski er þetta enn eitt dæmið um misheppnaðan galdur? Ég bið um hentugan maka og þá kemur elskhugi, sem alls ekki kemur til greina sem maki, stormandi frá útlöndum og kippir mér úr galdragírnum með pinnaskóm.

Og kannski hefði ég tekið því sem merki um að eitthvað hefði gengið upp, ef líkami minn hefði ekki, þrátt fyrir allan þennan Maríustakk, tekið upp á því að hafna honum. Ekki veit ég hvaða töfrar það eru, þetta á ekki einu sinni að vera líffræðilega mögulegt.

Jahérna

Fullt tungl í dag og ég undirbý aðra tilraun til ástargaldurs þegar einhver bankar upp á í Nornabúðinni. Kominn frá Bandaríkjunum og með gjafir handa mér.

Síðast fékk ég Solitary Witch sem nú liggur frammi í búðinni fyrir þá sem vilja fræðast um wicca. Í þetta sinn færir hann mér rautt peningabelti, sem merkir að hann veit að ég lærði magadans í vetur -sem merkir aftur á móti að hann hefur lesið vefbókina mína. Ekki nóg með það heldur skó, með pinnahælum sem passa á mig! Gullfallega í þokkabót. Sem merkir að hann er ennþá að lesa vefbókina mína.

Frekari galdratilraunir fóru út um þúfur.

Ef

Ligg með andlitið við hnakkagróf þína og held þéttingsfast um úlnlið þinn.

-Hvernig líturðu á samband okkar? Erum við bara að varaskeifur hvort fyrir annað eða skiptir þetta einhverju máli spyrð þú.
-Þú skiptir mig ákaflega miklu máli. Þú verður svo að svara fyrir sjálfan þig.
-Ég vildi að þú værir konan mín.
-Ein af konunum þínum?
-Við værum saman ef aðstæður væru öðruvísi. Þú veist það.
-Ef gult væri blátt væri rautt. Halda áfram að lesa