Þetta er greinilega hægt

Keli kom og fór. Öll fjölskyldan kom í heimsókn í Nornabúðina og við áttum mjög ánægjuleg stund saman.

Ég hef aldrei skilið almennilega hvað fólk á við með því að „hafa gaman af börnum“, rétt eins og börn séu einhver ákveðin dýrategund. Börn eru jafn mismunandi og annað fólk og ég hef gaman af því að umgangast skemmtileg börn sem kunna sig en hef lítið úthald gagnvart væluskjóðum og frekjugrísum. Stillt og kurteis börn eru oft hlédræg og feimin en dætur Kela og Linditu eru lifandi sönnun þess að vel er hægt að kenna börnum mannasiði án þess að þau verði bæld og ósjálfstæð. Telpurnar eru opnar og ákafar, áhugasamar um allt sem fyrir augu ber, spyrja mikið og hafa mikið að segja en eru þó svo prúðar að þær snerta ekkert í leyfisleysi og biðja m.a.s. um orðið með því að rétta upp hönd ef margir eru samankomnir.

Bæði Huldu Elíru og Mirjam langaði í sama hálsmenið en það var bara eitt til. Á mörgum heimilum hefði það kostað rifrildi og fýlu fram eftir degi en þessar stelpur leystu málið í algerri friðsemd. Ég hef enga trú á því að svona börn verði til fyrir einskæra heppni. Ég legg því til að foreldrar þeirra hætti að vinna fyrir norska ríkið og taki þess í stað að sér uppeldiskennslu. Þau gætu ferðast um heiminn og notað telpurnar sem auglýsingu. Ég er allavega viss um að margir myndu borga morð og milljón fyrir önnur eins börn.

Best er að deila með því að afrita slóðina