Dæmigert sumar

Byltingin farin austur á land með lítinn prímus og kaffikönnu í bakpoka. M.a.s. með hatt sem er ekki óáþekkur hatti Snúðs í Múmíndal. Pysjan, sem er ekki lengur Pysja, virðist ætla að hafa dvelja sumarlangt í Baunalandi.

Ég er sumsé kona einsömul sem merkir að sumarið er byrjað. Það fór aldrei svo að ég yrði verkefnalaus, þótt liti helst út fyrir að Mammon hefði ákveðið að senda mig í sumarfrí, þvert á móti er allt í drasli heima hjá mér og ég hef ekki ennþá ráðist í það metnaðarfulla verkefni að skila bókhaldinu af mér með einhverju sem nálgast það að geta kallast „með sóma“.

Allt stendur þetta til bóta. Ég er búin að raða niður verkefnum með svefntíma, bloggpásum og m.a.s. matarhléi á hverjum degi. Á sunnudaginn ætla ég að vera í sumarfríi heilan dag. Þá verður bókhaldið farið heim til sín, allt spikk&span hreint á rúminu, sunnudagskrossgáta og kappútsínó og allt verður fullkomið.

Best er að deila með því að afrita slóðina