Harmarunk þvottakonu

Heimilið lyktar eins og kertagerð. Ég er jafnframt því að steypa kerti búin að nota allan daginn til að þrífa og er enn ekki búin að fara í gegnum skápana. Þvottahúsið kjaftfullt af þvotti og samt eru báðir strákarnir mínir að heiman. Reyndar var ég að þvo sófaáklæðið en því til viðbótar er ég búin að þvo 3 vélar, bara af mér einni. Kannski ætti ég að fara treysta Hauki fyrir því að þvo pilsin mín og peysurnar eins og annan þvott. Hann hefur aldrei eyðilagt þvott og reyndar ekki Darri heldur, svo það er áreiðanlega óþarfi af mér að láta eins og þessar útsöludulur mínar séu gerðar úr handofnu silki.

Það er deginum ljósara að mig vantar hreindýr. Sem betur fer finnst mér ofsalega gaman í vinnunni minni en ég hef fengið 2 heila frídaga frá páskum (reyndar stöku sinnum tekið mér hálfan sunnudag til viðbótar, með vondri samvisku) og þeir hafa báðir farið í sendiferðir, þrif og þvotta. Mér finnst nákvæmlega ekkert skemmtilegt við að eyða þessum litla tíma sem ég hef heima í þrif og sorpuferðir og það hlýtur að vera þess virði að borga einhverjum öðrum fyrir að halda í horfinu.

Áhugamenn og konur um almenn heimilisstörf, innkaupaferðir, útréttingar og bílaþrif, hafið endilega samband við mig ef þið sjáið ykkur fært að taka við stöðu hreindýrs á heimili mínu. Helst fyrir næstu helgi því þá á ég að taka sameignina og það er vinnuhelgi líka. Ég get útvegað hinu sama hreindýri fleiri þrifaverkefni. Sennilega fleiri en nokkur kærir sig um að taka að sér.

Best er að deila með því að afrita slóðina