Ef

Ligg með andlitið við hnakkagróf þína og held þéttingsfast um úlnlið þinn.

-Hvernig líturðu á samband okkar? Erum við bara að varaskeifur hvort fyrir annað eða skiptir þetta einhverju máli spyrð þú.
-Þú skiptir mig ákaflega miklu máli. Þú verður svo að svara fyrir sjálfan þig.
-Ég vildi að þú værir konan mín.
-Ein af konunum þínum?
-Við værum saman ef aðstæður væru öðruvísi. Þú veist það.
-Ef gult væri blátt væri rautt.

-Er þetta ástarsamband?
-Það hefur mörg einkenni ástarsambands en ekki þau mikilvægustu.
-Hver eru þau mikilvægustu?
-Mikilvægasta einkenni ástarsambands er fullvissa um að það sé ástarsamband. Ekki eitthvað sem þarf að purkast með eða reyna að troða inn í skilgreiningar. Ást veltur ekki á aðstæðum.
-Hvernig heldurðu að þetta þróist?
-Ég prófa galdurinn aftur á morgun og finn rétta manninn í júlí. Við verðum áfram vinir en fjarlægjumst af því að ég þarfnast þín ekki lengur. Svo tilkynnir gaurinn mér upp úr þurru að sambandinu sé lokið og ég fell saman eins og spilaborg enda þótt ég hafi séð það fyrir. Og þá kemur þú til mín og hlustar á hjarta mitt slá. Og heldur áfram að ímynda þér að það séu aðstæðurnar sem skapa manninn en ekki öfugt.

Svo sleppi ég taki á úlnlið þínum og legg lófa að brjósti þér.
Síminn þinn hringir út á meðan hendur mínar hlusta á hjarta þitt slá.

Best er að deila með því að afrita slóðina