Ofnæmi?

Fyrst kenndi ég tilviljunum um en nú hefur gengið á þessum undarlegheitum í næstum 2 ár samfleytt.

Í hvert sinn sem ég kemst í hvíslfæri við karlmann sem hugsanlegt er að ég gæti með góðum vilja orðið ástfangin af, fæ ég líkamleg höfnunareinkenni sem eiga sér enga læknisfræðilega skýringu.

Því minni áhrif sem karlmaður hefur á hormónastarfsemi mína, því meiri líkur eru á því að holdlegt samneyti sé framkvæmanlegt. Samt er hormónastarfseminni sem slíkri ekki um að kenna, því þetta gerist ekki ef engin karlvera er í námunda við mig þótt hormónin í mér hreinlega sjóði upp úr.

Ég verð að játa að þetta er að vissu marki praktískt. Annars hefði ég varið stórum hluta síðustu tveggja ára í að syrgja einhvern þeirra fávita sem ég hefði fallið fyrir áður en ég kom mér upp fávitafælu en nú þegar eðlislæg hrifning mín á fávitum hefur snúist í sambland af vorkunnsemi og fyrirlitningu, þá bara finnst mér þetta bara ekki sanngjarnt.

Mér hefur aldrei þótt skírlífi eftirsóknarverður lífsstíll enda veit ég ekkert dæmi þess að fólk hafi lifað skírlífi um lengri tíma án þess að bilast á geðinu.

Já, ég lít á það sem bilun að telja sig heilagan eða láta annað fólk koma fram við sig sem slíkan.

Best er að deila með því að afrita slóðina