Tilraun til greiningar

Ef ég væri ekki með teljara á þessari síðu, héldi ég að lesendur mínir hefðu yfirgefið mig. Teljarinn sýnir hinsvegar hundruð heimsókna frá því að ég stofnaði til getraunar sem aðeins einn hefur svarað og það svar er ekki fullnægjandi.

Skýringarnar sem mér koma í hug eru:
a) Lesendur mínir hafa engan áhuga á leiklist og hirða því ekki um að svara.
b) Lesendur mínir vita ekki hver sér um umhverfismat fyrir væntnanlegt álver á Reyðarfirði og hafa ekki nægan áhuga á lífsskilyrðum afkomenda sinna til að kynna sér það.
c) Lesendur mínir vita hvaða skítafyrirtæki sér um umhverfismatið en eru sýktir af siðblindu og vilja sem minnst ræða spillinguna og drullusokksháttinn sem einkennir stóriðjustefnuna.
d) Lesendur mínir eru póltísk kveifildi sem forðast óþægilega umræðu.

Hugsanlega eru fleiri skýringar til. Ég læt vita ef ég finn þær.

Verðlaunagetraun

Nú ætla ég að veita þeim fyrsta sem svarar tveimur spurningum rétt, viðurkenningu. Verðlaunin eru tveir miðar á leiksýningu að eigin vali.

Spurningarnar eru þessar:

-Hvaða fyrirtæki sér um umhverfismat fyrir álverið sem mun væntanlega rísa á Reyðarfirði?
-Hverskonar fyrirtæki var lokað vegna mengunar, á Reyðarfirði í mars árið 2003?

Never ending story

Sæti sölumaðurinn, sá hinn sami og mætti á krossgátukeppnina úfinn og í lopapeysu, kom í búðina í dag. Vantaði trix til að verða sér úti um konu sem ekki er í leit að alvarlegu sambandi.

Huggulegir menn á lausu eru yfirleitt ekki að leita að alvarlegu sambandi. Ef svo væri, væru þeir ekki á lausu.

Frí

Í dag var ég í fríi. Þ.e.a.s. ég var ekki í vinnunni. Ég mokaði út úr herbergi Ygglibrúnarinnar og úr geymslunni. Báðar þessar vistarverur voru svo stútfullar af drasli að ég varð að ryðja mér leið inn. Byrjaði kl 9 í morgun, tók mér samtals tveggja tíma hlé með matartíma og var að setjast viður rétt í þessu.

Tvö bílhlöss af drasli farin út og meira eftir. Prinsinn kemur heim á morgun, mun að vísu stoppa stutt en ég reikna fastlega með geðbólgu og taugadrullu yfir aðkomunni. Hann verður alltaf svo öryggislaus þegar hann sér herbergisgólfið sitt þessi elska.

Á morgun verð ég líka í fríi. Þá ætla ég að klára tiltektina og taka svo bókhaldið í gegn. Hæfileikar mínir til að njóta frístunda hljóta að vera í sérflokki.

Allt á floti

Hinn afkastakáti ástmögur minn reis upp við dogg, sýnilega undrandi á áhugaleysi mínu á frekari þjónustu og spurði hvort ég hefði nokkurntíma fengið „sprautufullnægingu“.
-Hkvmprhh -og hvað skyldi það nú vera? kurraði ég, sem hafði ekki heyrt þetta orð notað fyrr og datt helst í hug óvarðar samfarir eða þessháttar sóðaskapur. Halda áfram að lesa

Hvað má hann kosta?

Líf mitt er þægilegt.

Að vísu álíka spennandi og fasteignasjónvarpið en ef mig vantar sögur til að segja barnabörnunum get ég bara logið einhverju að þeim.

Þegar líf manns er ömurlegt finnst manni að allar breytingar hljóti að vera skárri en kyrrstaðan. Þegar allt gengur vel, hef ég áhyggjur af því að allar breytingar, sama hve heitt ég þrái þær, muni raska jafnvæginu. Halda áfram að lesa

Lygar

-Jæja, og hvernig leist þér á?
-Geðugur maður, það vantar ekki.
-En hvað?
-Ég fékk smá verk í pólitíkina af því að hlusta á hann og svo sagði hann Ásdísi að ég væri algjör dúlla.
-Kallaði hann þig dúllu! Í alvöru! Og hvar grófstu líkið? Halda áfram að lesa

Of mörg vel?

Annars er alls ekki hægt að reikna með svona mörgum velum.

Síðast þegar ég fór á stúfana hitti ég mann sem var ákaflega vel haldinn. Vel gyrtur líka. Mjög vel. Eins og Steinríkur.

Hann var ekki með neina arabafóbíu.

Stefnumót í bígerð

Mér hefur borist kvörtun um að ég skrifi of mikið um umhverfismál og of lítið um karlafar.

Skýringin er líklega sú að umhverfismálin valda mér meira hugarangri en karlmannskrumlur og er það vel.

Auk þess er þetta mín vefbók og ég sjálf sem ræð hvað ég fjalla um hérna :Þ

Annars stendur til að ég hitti óséð eintak af hinu hærðara kyni í dag svo þeir sem lifa sig inn í ástir mínar og örlög geta búið sig undir hefðbundna sápuóperu.

Held ég.

Helgarfrí fram að hádegi!

Nú er vika þar til ég get reiknað með að sjá árangur af ástargaldrinum. Nýtt tungl í dag en ég er ekki í neinu skapi til að galdra. Langar meira að gefa einhverjum uppskrúfuðum monthana undir fótinn og segja honum svo á kjarnyrtri íslensku hvað mér finnst um hann þegar hann fer að sperra á sér dindilinn, bara til að sjá sjallaglottið ummyndast í ráðleysisviprur. En svoleiðis gerir maður ekki. Ekki ef maður er almennileg manneskja. Halda áfram að lesa

Öfmul

Í dag héldum við fyrsta barnaafmælið í Nornabúðinni.

Ég yrði ekki hissa þótt fleiri öfmul fylgi í kjölfarið. Seyðgerður mín er nefnilega sannkallaður leikskólakennari í hjarta sínu.

Þegar elliheimilin koma í heimsókn skal ég sjá um að hafa ofan af fyrir gestunum. Mér er ekkert illa við börn ég kann betur við þau í stykkjatali en hópum. Eldri borgarar verða kannski ekki eins yfir sig hrifnir af súkkulaðipöddum en þeir iða heldur ekki eins mikið þótt þeir innbyrði sykur.

Þórfreður

Þórfreður veldur mér heilabrotum.

Um tíma taldi ég mig þekkja manninn á bak við dulnefnið. Allavega hefði það verið mjög líkt manni sem ég þekki að kalla sig Þórfreð.

Svo kom í ljós að sá sem ég hélt að væri Þórfreður var i rauninni Du Prés. (Eða það er ég rúmlega sannfærð um) Sem ég tel víst að sé sá sami og einu sinni kallaði sig Dramus.

Ég á erfitt með að trúa því að engin tengsl séu milli Þórfreðar og Dramusar. Samt hef ég ekkert fyrir mér í því nema nöfnin.

Fyrsta galdrabrúðan sem ég bjó til var gerð úr dagblöðum og lopa. Hún var ekki falleg en galdurinn heppnaðist nú samt vel. Síðar varð til brúða sem heitir Dramus en þjónar sama tilgangi og blaðagöndullinn.

Kannski bý ég einhverntíma til galdur sem heitir Þórfreður.

Lopapeysa á Næsta bar

Um daginn hitti ég sætan sölumann sem er á lausu og kemur samt ekki fyrir eins og hringli í hausnum á honum. Hann stoppaði lengur en hann þurfti. Mun lengur.

Ég hef svona verið að velta fyrir mér möguleikanum á að hafa samband við hann en ætlaði að ræða við kunningjakonu mína, sem vill svo til að þekkir hann, og fá umsögn, áður en ég færi að eyða dýrmætum tíma mínum í að dindilhosast utan í lambakjöti sem er svo kannski alki eða eitthvað þaðan af verra. Halda áfram að lesa

Andlit á glugga

Ég sofnaði aftur í morgun, aldrei þessu vant. Líklega hefur farið meiri orka í Ian Anderson en ég gerði mér grein fyrir. Ég vaknaði aftur um kl 8 með andlit á glugga, í bókstaflegri merkingu. Ég dró ekkert fyrir gluggann í gærköld og þarna blasti andlit við mér. Það er verið að gera við blokkina að utan og hinir skeleggu verkamenn sem dunduðu sér jafnan korterslangt á svölunum hjá mér síðasta sumar, eru komnir í gírinn aftur.

Ég fór í sturtu og þegar ég kom aftur var andlitið horfið. Vinnupallurinn er ennþá upp við gluggann svo hugsanlega koma þeir aftur í dag. Þeir eru líklega í 8-9 pásunni núna.

Ó mæ god

Lykta ég eins og gamalmenni? spyrð þú.
Þetta getur maður kallað að spyrja ranga konu rangrar spurningar. Setjum sem svo að sú væri raunin. Finnst þér líklegt að ég segði þér það?

Reyndar hef ég ekkert velt líkamslykt þinni fyrir mér enda hef ég aldrei orðið fyrir áhrifum af henni. Mér finnst ólíklegt að þú lyktir eins og gamalmenni. Mér finnst sennilegast, svona fyrst ég er komin út í þessar pælingar, að þú lyktir eins og maður á þínum aldri á að gera. Ég hinsvegar veit það ekki, því ég hef aldrei þefað af þér. Halda áfram að lesa