Lykta ég eins og gamalmenni? spyrð þú.
Þetta getur maður kallað að spyrja ranga konu rangrar spurningar. Setjum sem svo að sú væri raunin. Finnst þér líklegt að ég segði þér það?
Reyndar hef ég ekkert velt líkamslykt þinni fyrir mér enda hef ég aldrei orðið fyrir áhrifum af henni. Mér finnst ólíklegt að þú lyktir eins og gamalmenni. Mér finnst sennilegast, svona fyrst ég er komin út í þessar pælingar, að þú lyktir eins og maður á þínum aldri á að gera. Ég hinsvegar veit það ekki, því ég hef aldrei þefað af þér.
Sjálfsagt hef ég einhverntíma komist í nægilegt návígi við þig til að finna af þér lyktina. En ég hef ekki „tekið hana til mín“. Ég þefa ekki af öðrum en þeim sem ég á náin tilfinningaleg samskipti við. Ég hnusa ekki af ættingjum, vinum, kunningjum, kúnnum, Sjoppmundi, Tanngarði eða kennara Ygglibrúnarinnar. Og komi það samt sem áður fyrir að líkamslykt berist til mín, er ég forrituð til þess að vista ekki þá skrá, heldur setja hana strax í ruslið alveg eins og ef ég gengi óvart inn á þig nakinn.
Ég veit ekki hvort þú ert með hár á bringunni, hvort þú geymir bók á náttborðinu, í hvaða stellingu þú sofnar eða hvernig þú lyktar. Ég get ekki vitað neitt slíkt af því að við erum ekki og höfum aldrei verið elskendur. Ekki einu sinni skuldbindingarlausir bólfélagar.