Ligg á fleti í húsi Málarans, nánast nakin og í sömu stellingu og Kristur á krossinum. Samt er ég hvorki fórnarlamb né frelsari. Sjálfskipaður verndari minn sendir sms á 20 mín fresti og spyr hvort Málarinn sé búinn að skera mig á háls.
Pensli rennt eftir handlegg, öxl og niður. Skrýtið, varla ætlar hann að mynda á mér handarkrikana? Samt hvorki ágengt né náið. Ég kann að aftengja líkama og sál. Í krabbameinsskoðun er ég kjötflykki, líkami minn kemur mér ekki við. Þetta er svipað. Mér er kalt en mér er sama um það. Ég er ekki Eva, ekki kynvera, ekki mannvera, heldur strigi listamanns. Hann málar mynd, ekki af mér, heldur á mig. Það er ólík upplifun en samt er hlutverkið sama eðlis og þegar maður situr fyrir hjá teiknara.
-Ég er stundum spurður hvort líkamsmálun sé fetish. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara því. Þetta er ástríða en hún er ekki kynferðisleg, segir hann og málar blómkrónu á brjóst mitt. Hvar liggja mörkin milli þess klisjukennda og klassíska? hugsa ég og horfi á svipbrigðalaust andlit hans þegar hann strýkur pensli, vættum í rauðu yfir geirvörtuna.
-Þá er það ekki fetish, ekki frekar en matseld eða útskurðarlist, svara ég.
Myndirnar á engan hátt erótískar. Ekki heldur þessi af handarkrikanum. Hann myndar ekki líkama minn heldur myndirnar sem hann málaði á hann.
-Hann er hvorki hættulegur né skotinn í mér. Honum finnst bara ofsalega gaman að mála, segi ég á heimleiðinni.
-Ég vildi að ég gæti í einlægni óskað þess að galdurinn hafi hitt einhvern. Þú átt að eignast góðan mann. Sem vaknar snemma og les ljóðin þín og elskar þig eins og á að elska. Það er bara þetta eina smáatriði.
-Hvaða smáatriði?
-Það er ég sem lengst af hef hlustað á hjarta þitt slá, segir hann, sem aldrei hefur lært að aðgreina hið líkamlega og andlega.