Helgarfrí fram að hádegi!

Nú er vika þar til ég get reiknað með að sjá árangur af ástargaldrinum. Nýtt tungl í dag en ég er ekki í neinu skapi til að galdra. Langar meira að gefa einhverjum uppskrúfuðum monthana undir fótinn og segja honum svo á kjarnyrtri íslensku hvað mér finnst um hann þegar hann fer að sperra á sér dindilinn, bara til að sjá sjallaglottið ummyndast í ráðleysisviprur. En svoleiðis gerir maður ekki. Ekki ef maður er almennileg manneskja.

Kannski íhugaði ég þetta samt í alvöru ef það sæist utan á þeim hver er líklegur til að reyna að sleikja eyru ástkonu sinnar. Fátt veldur mér meiri viðbjóði en það þegar einhver rekur tunguna upp í eyrað á mér. Ég gat þolað hundinum mínum það á sínum tíma en ég gat líka umborið það þegar hann faldi bein á bak við bókaskápinn og meig utan í bíldekk. Ég get hinsvegar ekki tekið því þegar fólk hegðar sér eins og hundar.

Mig langar að gera eitthvað annað en að smíða vatnsnema í kvöld. Ef mér væri ekki svona illa við reykingar væri ég vís með að fara og fylgjast með Byltingunni í nýju vinnunni sinni. Ég get ekki sagt að 00-06 samræmist mínum hugmyndum um frábæran vinnutíma en reynslan er besti kennarinn. Fyrir tveimur árum lærði Byltingin hversvegna maður á ekki að vera of lengi á sama vinnustað, hversvegna maður á ekki að ráða sig í vinnu þar sem fríðindin eru of mikilvæg til að maður tími að sleppa starfinu og hversvegna maður á ekki að treysta þeim sem meta arðsemi meira en mannréttindi. Fyrsta lexía þessa sumars verður „hversvegna er nóttin kennd við Satan“.

Mér finnst skemmtilegt að sofa á næturnar.

Best er að deila með því að afrita slóðina