Síðustu 10 daga hafa útsendarar Ístaks í Vesturbænum andskotast með höggbor á stærð við Hallgrímskirkju, án afláts, á bak við búðina mína. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Ístaks mun framkvæmdum, með margvíslegri hljóðmengum, ljúka í júní 2007 og er útilokað að segja til um hversu lengi við þurfum að búa við ófögnuðinn af þessum bor. Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir flokkinn: Óflokkað (allt efni)
Horfinn
Nú ertu horfinn. Í bókstaflegri merkingu. Þegar ég kastaði á þig Hulinshjálmi, var hugmyndin sú að þú hyrfir úr huga mínum, ekki sú að jörðin gleypti þig. Næst nota ég varnarstaf með.
Ég veit að þú lest bloggið mitt og þar sem þú svarar ekki tölvupósti (og ég veit því ekki hvort þú lest hann) ætla ég að birta skilaboðin hér. Halda áfram að lesa
Ekki er allt sem sýnist
Ef einhver væri nógu leiðinlegur til að gera heimildamynd um eina fríhelgi í lífi mínu, yrði auðvelt að draga þá ályktun af myndinni að Eva sé í eðli sínu mikil skúringakona í ákafri karlmannsleit.
Þetta er þriðja föstudagskvöldið í röð sem ég nota til þess að þrífa íbúðina.
Það segir meira um sjónvarpsdagskrána en dugnað minn og meira um félagslyndi mitt en hreinlæti.
Örvæntingafull leit mín að stuttum og ópersónulegum kynnum af iðnaðarmanni segir svo aftur meira um ástandið á pípulögnum og rafkerfi híbýla minna en ástsýki mína.
Væna konu – hver hlýtur hana?
Konan mín er fullkomin.
Þegar ég kom í vinnuna var hún búin að gera búðina fullkomna og það sem meira er, hún var búin að laga bloggið mitt, svo nú get ég skrifað ógnalangar færslur. Svo langar að enginn nennir að lesa þær nema ég sjálf. Hún er fullkomin og mun ég leggja bölvun á hvern þann karlmann sem lítur hana girndarauga. Ég ætla að eiga hana sjálf. Og hana nú.
Ian á leiðinni
Ég keypti tvo miða á tónleikana með Iani Andersyni.
Ég þekki reyndar engan sem mér vitanlega hlustar á Jethro Tull, (nema einn sem hlustar á alla almennilega tónlist og fer á alla tónleika og er örugglega löngu búinn að tryggja sér miða) en ef aðdáandi leynist í kunningjahópnum er viðkomandi beðinn að gefa sig fram til fylgdar á tónleikana.
Bilun?
Ég hef áhyggjur af því hvað ég hef miklar áhyggjur af geðheilsu minni. Mér finnst það bara dálítið sjúklegt.
Sjálfsvirðing beðmálalufsunnar
Í gær sá ég sjónvarpsþátt um lufsu sem stendur uppi húsnæðislaus, sökum eigin afglapa. Vill kaupa íbúð en reynist ekki lánshæf (vegna langvarandi verslunarbrjálæðis). Engin leiguíbúð sem hún ræður við er nógu fín fyrir hana. Hún borðar á veitingastöðum og notar leigubíla, því skórnir hennar eru ekki hannaðir til göngu. Hún fær nett dramakast yfir því að geta ekki keypt fleiri skópör til viðbótar þessum 100 sem hún á fyrir. Hún leitar „ráða“ hjá manni sem er margbúinn að fara illa með hana. Hún tekur geðbólguna út á vinkonu sinni sem bauðst ekki til þess að leysa málin fyrir hana og klikkir út með því að þiggja af henni lán, hring sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir vinkonuna. Halda áfram að lesa
Óhreinu börnin hennar Evu
Andlit byltingarinnar er innblásinn af fítonskrafti eftir uppákomuna á miðvikudaginn. Um síðustu helgi leið honum svo illa í pólitíkinni að ég hélt jafnvel að frekari aðgerðir yrðu saltaðar í bili. Ég veit ekki alveg hvað gerðist en hann beit einhvernveginn í sig að sinnuleysi og óvirkni fullorðna fólksins væri bara sjálfskapað víti en ekki örlög.
Pysjan fer austur fyrir fjall í dag til að sækja liðsauka. Ég játa á mig talsverðan kvíða yfir þátttöku hans. Þótt hann hafi alla tíð verið 10 sinnum þrjóskari en bróðir hans, og þar með ágætt efni í aktívista, finnst mér hann alltaf vera hann litli minn.
Megrunarslátur
Ég lít á matvendni sem skapgerðarbrest. Ég get ekki sagt að ég sé hrifin af hafragraut og súrmeti en ég man satt að segja ekki eftir neinu sem mér finnst svo ógeðfellt að ég myndi ekki borða það fyrir kurteisissakir. Halda áfram að lesa
Áríðandi!
Nokkrum klukkutímum fyrir ögurstund kom í ljós að unnusta Byltingarinnar kemst ekki með okkur í leikhúsið. Ég ætlaði að taka Leónóru með í staðinn en hún er þá hjá ömmu sinni í sveitinni. Svona uppákomur gefa manni alveg nýja sýn á kunningjahópinn. Í gærkvöld og í morgun er ég búin að átta mig á því að mínir vinir og kunningjar eru: Halda áfram að lesa
Nostalgía
Ég sakna hans ekki.
En samt sem áður er hann eini maðurinn sem ég hef kynnst sem vaknaði kl. 7:30 á sunnudagsmorgni og fór fram úr rúminu til að gera eitthvað.
-Hvert ert þú að reyna að laumast? Ætlarðu að fara á fætur án mín?
-Ég ætla að pissa án þín ef þér er sama.
-Komdu svo aftur.
-Nei, komdu frekar á fætur. Ég er með nýtt lag, þú þarft að skrifa texta fyrir mig.
-Svo förum við og tínum krækling. Eða skoðum eyðibýli.
-Hvortveggja! Og ég festi upp hillurnar og svo höldum við matarboð í kvöld.
-Komumst við yfir það?
-Já og ef þú kemur þér fram úr fyrir 8 getum við slappað af líka.
Af hverju í fjandanum þurfti hann að reynast sami andskotans drullusokkurinn og allir hinir?
Gólfliggjandi barátta
Haukur lýsir aðgerðum umhverfisverndarsinna, á skrifstofu Alcoa í gær og viðbrögðum lögreglu, á Fréttavakt nfs í morgun.
Ofbeldismenn
Byltingin er með áverka eftir lögregluþjón. Ég er stolt af því.
Í sjónvarpinu sagði fulltrúi lögreglu að aðferðir þeirra væru ekki réttar. Fulltrúi Alcoa sagði að sjálfsagt væri að ungt fólk nýtti sér rétt sinn til að láta í sér heyra. Þau ættu bara að gera það utan dyra svo þeir sem mótmælin beinast að þyrftu ekki að heyra þau.
Mótmæli sem ekki valda truflun heyrast ekki og ég hef aldrei heyrt um rétta mótmælaaðferð sem skilar árangri.
Mér finnst frábært að sérsveitin skuli hafa vera send á þessa unglinga. Það sýnir bara að loksins eru menn farnir að taka mótmæli þeirra alvarlega.
Ef píkan á þér gæti talað
Ef píkan á þér gæti talað, hvað myndi hún þá segja?
Láttu mig í friði, missti ég út úr mér upphátt. Röddin sem las spurninguna hljómaði ekki eins og einhver sem píkan á mér væri til í að halda uppi samræðum við. Það var samt ekki fyrr en Siv Friðleifsdóttir sagði sleiktu mig, sem ég tók fyrir eyrun.
Myndræn hugsun er ekki mín sterka hlið. Ég heyri sögur. Ég heyri samræður persóna en sé þær ekki fyrir mér nema sem útlínur og skugga. Þessvegna vil ég helst sjá kvikmyndir byggðar á sögunni áður en ég les bókina. Stundum set ég andlit einhverra leikara á sögupersónur.
Þegar Siv Friðleifsdóttir segir sleiktu mig, og ég horfi á andlit hennar í sjónvarpinu, finn ég aðkenningu að mynd, sem tepran í mér ræður ekki almennilega við. Ósjálfráð viðbrögð mín eru þau að grípa fyrir eyrun. Ekki augun.
Tepran í mér er ekki sérlega rökvís.
Persónuleikapróf
Viðbrögð við einföldum spurningum um aðstæður sem aldrei koma upp, segja manni allt sem maður þarf að vita um fólk.
Hvort myndir þú velja;
-að losna við allar skuldirnar þínar og fá 100 milljónir skattfrjálsar að auki, eða
-að losna við allar skuldirnar þínar og fá 1000 milljónir skattfrjálsar að auki. Halda áfram að lesa
Kornið sem fyllti mælinn
Þórfreður hefur um nokkra hríð hulið ljós sitt undir mælikeri en veltir nú vöngum yfir orðatiltækinu um kornið sem fyllir mælinn.
Líkingin er reyndar gegnsæ. Kornmælir var notaður til að meta magn korns, á sama hátt og desilítramál í dag. Kornið sem fyllir mælinn er þá smáatriðið sem veldur því að nú er mælirinn fullur.
Þórfreður segir sína mæla eingöngu fyllta dropum og veltir fyrir sér hverskonar korn séu í mínum mælum.
Í mínum mæli eru fyrst og fremst sannleikskorn. Ekki er ólíklegt að kornmælirinn eða annað sambærilegt verkfæri hafi verið notað til að mæla vökva en mig rennir í grun að dropar þeir sem fylla mæli Þórfreðar, séu þeir hinir sömu dropar og gjarnan hola harðan stein.
Heilsufarsráðunautur heimilisins
Sonur minn Prinsessan virðist harðákveðinn í því að komast að því hvar nákvæmlega þolmörk mín gagnvart duttlungum liggja. Hann afrekaði nú samt að þvo tvö glös og eina teskeið án þess að nota gúmíhanska en þá var líka farið að reyna verulega á þanþol geðprýði minnar. Halda áfram að lesa
Karlmennskan
Sáum Naglann í kvöld. Það sem mér líður alltaf vel í leikhúsi. Ég skil það ekki sjálf.
Hvað er karlmennska?
Mér fannst dálítið stingandi hve margir viðmælenda tengja saman karlmennsku og heiðarleika. Ef heiðarleiki er karlmannlegur er óheiðarleiki þá kvenlegur?
Karlmennska er að mínu viti fólgin í því að fá kikk út úr því að gera ýmislegt sem veldur mér sálarangist. T.d. að bera þunga hluti og beita höggborvél.
Bara svo það sé á hreinu er karlmennska ekki forsenda þess að ég vilji sofa hjá karlmanni.
Ég er samt ekki svo bjartsýn að gera mér vonir um að finna einhvern sem er 26 ára leikhússrotta, skegglaus, fíknlaus, fjárhagslega heilbrigður, klár og skemmtilegur, búinn að afgreiða allar barneignir, trúlaus, pólitískt meðvitaður morgunhani sem kann á borvél.
Hugljúf
Ég ætti að kvíða marsmánuði. Undanfarið hef ég verið í fríi á kvöldin og finnst satt að segja mjög notalegt að kúra undir teppi í náttfötum, lesa eða horfa á sjónvarpið og fara snemma að sofa. Ég býst ekki við að verði mikill tími til þess í næsta mánuði en mér er alveg sama. Halda áfram að lesa
F—itt
Í dag hafði ég hugsað mér að senda Ökuþórinn í verslunarleiðangur og njóta þess að þurfa hvergi nærri því að koma. Hann hringdi um kl 11 til að segja mér að bíllinn væri bilaður. Það er ekki ímyndun í honum. Afi hans dró bílinn heim.
Á mánudaginn fór ég með bílinn í smurningu og aðalskoðun og lét bóna hann.