Geðprýði dagsins

Síðustu 10 daga hafa útsendarar Ístaks í Vesturbænum andskotast með höggbor á stærð við Hallgrímskirkju, án afláts, á bak við búðina mína. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Ístaks mun framkvæmdum, með margvíslegri hljóðmengum, ljúka í júní 2007 og er útilokað að segja til um hversu lengi við þurfum að búa við ófögnuðinn af þessum bor.

Þar sem titringurinn nægir ekki til að ryðja hlutum niður úr hillum og hávaðinn dugir líklega ekki til að valda varanlegum heyrnarskaða, er víst lítið hægt að gera annað en að umbera þetta. Ég hef enga trú á því að ég sé heilsutæpasta manneskjan í hverfinu og ég er með höfuðverk. Hvernig ætli ástandið sé á elliheimilinu? Hvað um fólk í næturvinnu? Lög um hollustuhætti og mengun gera víst ekki ráð fyrir að fólk vinni næturvinnu eða hafi af öðrum orsökum þörf fyrir nógu mikið næði á daginn til að eyrnatappar nægi til þess að fólk fái svefnfrið.

Nú er víst útilokað að byggja hús án þess að það hafi einhvern hávaða í för með sér en fáránleiki þeirrar hugmyndar að reisa 12 hæða blokk við Tryggvagötuna er ekki beinlínis til þess fallinn að auka geðprýði mína. Í augnablikinu kemur tvennt til greina; að gúlla í mig eins og hálfum bjór eða rölta niður fyrir hús og tilkynna bormenninu að ég hyggist leggja á það bölvun. Það er nenfilega fullt tungl svo nú er lag.

Ætli lög um hollustuhætti nái ekki yfir geðheilsuspillandi starfsemi? Hvað þarf maður að innbyrða mikið áfengismagn í vinnunni til að læknir staðfesti að maður sé á góðri leið með að koma sér upp áfengissýki?

Best er að deila með því að afrita slóðina