Bank

Nú veit ég hvað fólkið á hæðinni fyrir ofan mig horfir ekki á í sjónvarpinu. Ekki David Attenborough og aðrar heimildamyndir. Ekki heldur Kastljósið.

Ég hef ekki spurt nágrannana út í sjónvarpsáhorf þeirra. Þau bara standa í framkvæmdum með tilheyrandi hamarsbanki og borvélardyn og ég hef tekið eftir því að framkvæmdagleðin grípur þau á ákveðnum tímum vikunnar. Ég held ekki að það sé neitt persónulegt gagnvart mér. Auðvitað er sjálfsagt mál að fólk sinni þeim framkvæmdum sem það þarf. Ef það væri ekki sjálfsagt myndi ég biðja þau að hætta en það sumsé er sjálfsagt. Sennilega vita þau ekki einu sinni að útsendarar Ístaks hófu höggborsæfingar sínar sama dag og þau byrjuðu að negla. Þau vita heldur ekki hvaða sjónvarpsefni ég horfi á og þau eru ekki að frá kl 6 á morgnana til 7 á kvöldin 6 daga vikunnar. Þau eru áreiðanega besta fólk þótt þau hafi annan sjónvarpssmekk en ég.

Ég er ekki haldin neinni gremju í þeirra garð. Bara svona almennu svekkelsi sem gjarnan fylgir höfuðverk. Ekkert persónulegt.

Í Kastljósinu er maður með krabbamein. Hann hefur alvöru ástæðu til að vera svekktur. Eiginlega hefur maður engan rétt á að láta sér gremjast það þótt maður búi við stöðug högghljóð 13-14 tíma á dag, með hálftíma hléi á heimleiðinni. Ég nenni heldur ekki að svekkja mig á þessu. Þessvegna ætla ég í vinnuna aftur. Útsendarar Ístaks hljóta að vera farnir heim að horfa á Kastljósið.

Best er að deila með því að afrita slóðina