Megrunarslátur

Ég lít á matvendni sem skapgerðarbrest. Ég get ekki sagt að ég sé hrifin af hafragraut og súrmeti en ég man satt að segja ekki eftir neinu sem mér finnst svo ógeðfellt að ég myndi ekki borða það fyrir kurteisissakir.

Það góða við mat sem manni finnst ekki sérlega góður er að maður getur reiknað með því fyrirfram. Það er aftur á móti nokkurt áfall fyrir bragðlaukana þegar maður lendir í því að bíta í eitthvað lítt spennandi dulbúið sem góðgæti. Ég skil t.d. ekki hversvegna fæða sem lítur út eins og sælgæti en er í raun próteinmassi með efnabragði, hjúpaður með smá hunangi og carobi (carob er eitthvað bragðlaust sem er að þykjast vera súkkulaði) selst. Þetta er ekkert óætt en langt frá því að vera frændi snickers.

Samt kemst enginn dulbúinn megrunarréttur í hálfkvisti við fitusnautt slátur. Hversvegna í ósköpunum borðar fólk ekki bara soðinn fisk og grænmeti ef það vill grennast? Það er þó allavega gott.

Frysthólfið mitt er fullt af slátri. Mér finnst slátur dásamleg fæða en hef ekki eldað það nema einu sinni í vetur. Það var SS slátur. Ég veit ekki hvort slátrið í frystinum mínum er fitusnautt. Slátrið sem ég fékk í fyrra (frá sama fólki) var það. Ég át það samt. Ég bara hendi ekki mat nema hann sé skemmdur. Nú get ég ekki gert upp við mig hvort mun valda mér verra samviskubiti; að láta mat sem er kannski afbragðsgóður skemmast af því að ég er aldrei í stuði til að láta koma mér á óvart, eða sjóða slátrið og henda því svo þótt það sé ekki skemmt heldur bara ekki sérlega spennandi. Ég mun allavega ekki láta mig hafa það annað árið í röð að borða 10 kg af megrunarslátri.