Persónuleikapróf

Viðbrögð við einföldum spurningum um aðstæður sem aldrei koma upp, segja manni allt sem maður þarf að vita um fólk.

Hvort myndir þú velja;
-að losna við allar skuldirnar þínar og fá 100 milljónir skattfrjálsar að auki, eða
-að losna við allar skuldirnar þínar og fá 1000 milljónir skattfrjálsar að auki.

Í báðum tilvikum fylgir það skilyrði að þú mátt ekki láta neinn utan kjarnafjölskyldu þinnar njóta góðs af þessu fé eða vöxtunum af því.

Flestir falla í þá gildru að horfa á upphæðina. Það sem kemur upp um þig er:

a) ástæðan fyrir vali þínu. Hefurðu einhverja hugmynd um hvað þú vilt?
b) hvort þú krefst skýringa á skilyrðunum eða sérð bara gróðavonina.

Flestir segja; meira, af því bara, af því það er meira.
Flestir lifa í heimi þar sem meira er aldrei nóg.

Jafn hallærisleg ávöxtunarleið og markaðsreikningur myndi skila þeim sem á 100 milljónir, nógu háum vöxtum til að tryggja fjölskyldunni áhyggjuleysi og reyndar miklu meira en það.

Hvað hef ég með 900 milljónir til viðbótar að gera fyrst ég má ekki láta aðra njóta góðs af?
Væri ekki álíka gáfulegt að safna peningum, bara til að eiga þá, eins og að fylla geymsluna af drasli sem maður veit að verður aldrei notað og kemur engum til góða?

Þegar allt kemur til alls er þekking það eina sem ekki er hægt að taka frá manni og ef einhver tæki frá mér alla peningana mína yrði þeim mun sársaukafyllra að hafa vanið sig á botnlaust sukk og sjálfsdekur.

Samt veldi ég hærri upphæðina.

Ekki til að tryggja mér meira öryggi, því það væri falskt öryggi.
Ekki til að kaupa meira, því mig vantar ekki meira.

Ég veldi hærri upphæðina af tveimur ástæðum:

a) Ég þoli ekki að láta kúga mig og fengi of mikið kikk út úr því að finna leiðina fram hjá skilyrðinu til að láta tækifærið ganga mér úr greipum.
b) Peningar gefa manni vald. Ég væri t.d. til í að kaupa Landsvirkjun bara til að afstýra stórslysum.

Ég skynja peninga sem vald. Þar liggur hinn kapítalíski harðkjarni hjarta míns.

Best er að deila með því að afrita slóðina