Kornið sem fyllti mælinn

Þórfreður hefur um nokkra hríð hulið ljós sitt undir mælikeri en veltir nú vöngum yfir orðatiltækinu um kornið sem fyllir mælinn.

Líkingin er reyndar gegnsæ. Kornmælir var notaður til að meta magn korns, á sama hátt og desilítramál í dag. Kornið sem fyllir mælinn er þá smáatriðið sem veldur því að nú er mælirinn fullur.

Þórfreður segir sína mæla eingöngu fyllta dropum og veltir fyrir sér hverskonar korn séu í mínum mælum.

Í mínum mæli eru fyrst og fremst sannleikskorn. Ekki er ólíklegt að kornmælirinn eða annað sambærilegt verkfæri hafi verið notað til að mæla vökva en mig rennir í grun að dropar þeir sem fylla mæli Þórfreðar, séu þeir hinir sömu dropar og gjarnan hola harðan stein.