Heilsufarsráðunautur heimilisins

Sonur minn Prinsessan virðist harðákveðinn í því að komast að því hvar nákvæmlega þolmörk mín gagnvart duttlungum liggja. Hann afrekaði nú samt að þvo tvö glös og eina teskeið án þess að nota gúmíhanska en þá var líka farið að reyna verulega á þanþol geðprýði minnar.

Ég lét strákana um bollubaksturinn. Hef sjálf setið við að lóða saman rafeindatæki. Nýjasta kenning endorfínuppsprettu tilveru minnar um heilsufar mitt er sú að tinreykurinn sé hægt og rólega að eyðileggja í mér lungun. Nú getur hann ekki lengur velt sér upp úr því að mataræði mitt sé á mörkum þess að draga mig til dauða eða að ég sé að því komin að fá magasár af völdum kaffiþambs. Ég er búin að viðurkenna að ég þurfi að láta rífa úr mér hálskirtlana (sem er líklega eina kenning hans um heilsubrest minn í nútíð og framtíð sem á sér einhverja stoð í veruleikanum) svo nú er hann tekinn til við áróður gegn öllum hryllingnum sem ég anda að mér. Vaxgufan af kertunum, reykelsin, lakkið og tinið, þetta á víst allt saman að vera bráðdrepandi. Hvernig ætli reykingafólki gengi að búa með honum?

Ég verð að játa að mér þykir í aðra röndina vænt um þessa umhyggju þótt það kosti mig þriggja daga samviskubit ef mér verður á að éta kleinu í návist hans. Því miður hafa næringarfræðifyrirlestrar hans nákvæmlega engin áhrif á son minn Prinsessuna.