Ný viðskiptahugmynd

Í dag kom ungur maður inn í búð til mín, 10 eða 12 ára kotroskinn og keikur. Hann stakk að mér viðskiptahugmynd sem ekki hefur brugðið fyrir í mínum villtustu fantasíum.

-Þessi búð þyrfti að vera stærri, sagði aðdándinn ungi og ég samsinnti því og sagði honum að það kæmi vel til greina að færa út kvíarnar í fyllingu tímans ef ég fyndi hentugt húsnæði.
-Þetta sagðirðu nú líka þegar við komum að kaupa jólagjafir, svaraði hann einbeittur og horfði beint í augun á mér. Mér leið eins og væru fjögur ár síðan hann kom hingað með mömmu sinni upp úr miðjum desember og að ég hefði verið staðin að því að svíkja kosningaloforð. Ég tautaði eitthvað um að það tæki tíma að safna peningum og finna rétt húsnæði, mér til afsökunar en fékk þá viðskiptahugmynd aldarinnar á silfurfati.
-Ég veit sko nefnilega um hús sem þú getur fengið, sagði hann íbygginn.
-Nú, er það hér í nágrenninu? spurði ég.
-Það er svolítið langt frá. Veistu hvar IKEA var áður?
Jújú, ég vissi það svosem.
-Það hús er sko laust. Þú getur áreiðanlega fengið það, sagði minn með sannfæringu.

Og nú er ég auðvitað á fullu að skipuleggja. Ég hugsa að ég setji reykelsin í sófadeildina og alla 60 stokkana af tarotspilum í svefnherbergisálmuna. Krákuvængirnir geta bara verið í Boltalandi. Ég á hvort sem er ekki nema tvo. Ég fæ allavega nóg pláss til að bæta við smá fatnaði og bókum. Staðsetningin er líka brilliant. Ég meina, sjáiði ekki fyrir ykkur föstudagsinnkaupin. Rúmfatalagerinn; tvö viskustykki og fimm herðatré, Bónus; helgarsteik, Cheerios, appelsínusafi og fleira, Ríkið, ein kippa af bjór og ein hvítvínsflaska, Nornabúðin; ein girndarrún, nokkrir stokkar af spáspilum, barnakrem, einn pakki af brenninetlu, slatti af rjúpnalöppum, tvær skuldafælur og eitt hreindýrshorn … Allt það nauðsynlegasta á einum stað.

 

Anda léttar

Byltingin búinn að gefa sig fram eftir allt of langt sambandsleysi. Ég var farin að hafa áhyggjur en snillingarnir í Saving Iceland höf’ðu upp á honum. Hvaða heilastöð ætli að þurfi að meðhöndla til að koma honum almennilega í skilning um að orðið „týndur“, merkir ekki „þegar þú ert einn uppi á hálendinu í vondu veðri og ratar ekki heim“ eða „þegar mannræningjar hafa flutt þig nauðugan til Venesúela og skorið af þér litlu tána,“ heldur bara einfaldlega „þegar mamma þín veit ekki hvar þú ert“?

Hann er allavega staddur í Reading og allt í lagi með hann. Ætlar að senda tölvupóst seinna í dag.

 

Kerfið ræður

Nornin: Ég var að skoða yfirlitið frá þér og sumar tölurnar stemma ekki við blaðið sem ég er með fyrir framan mig.
Þjónustuaðili: Nú? Hvernig getur staðið á því?
Nornin: Já það er nú einmitt það sem ég er að velta fyrir mér. Hvernig fannstu þessar tölur?
Þjónustuaðili: Þetta bara spýttist svona úr prentaranum.
(Ég fann að ég varð skrýtin á svipinn)

Nornin: Jaaaaá, en þá hljóta tölurnar að vera svona í skjalinu. Ekki prentar hann eitthvað annað en stendur þar?
Þjónustuaðili: Nei, þetta er eins hjá mér, tölvan vill hafa þetta svona, munar miklu?
Nornin: Nei, nei, þetta munar ekki nema nokkrum krónum, ekkert stórmál en ég vil samt hafa þetta rétt svo við þurfum að finna villuna. Hvar fékkst þú þessar tölur?
Þjónustuaðili: Ég veit það ekki almennilega. Þetta er bara svona í kerfinu.

Alltaf finnst nú leiðrétting á endanum en já, mér finnst ég ennþá vera dálítið skrýtin á svipinn.

Og það varð ljós

Hitti mann af e-m í dag. Afskaplega frambærilegan á allan hátt og ef hann er með „hidden agenda“ þá hefur honum tekist mjög vel að blekkja mig.

Þetta er bara annar maðurinn sem ég hitti í þessari umferð. Held að með þeirri skilvirku aðferð sem ég nota núna (að hafa markhópinn þröngan og blokkara strax þá sem ekki falla í hann) hljóti mér að takast að finna nokkra klassamenn.

 

Norn mánaðarins

Flestar konur eru skaplausar undirlægjur sem taka því með þolinmæði þegar fávitar skeina sig á tilfinningum þeirra. Þó eru til undantekningar sem ættu að vera okkur hinum hvatning til eftirbreytni. Hér eftir ætla ég að velja Norn mánaðarins, til að minna sjálfa mig og aðra á það að konur njóta yfirleitt ekki þeirrar virðingar og réttinda sem þeim ber, nema gera kröfu um það sjálfar.

Norn janúarmánaðar 2007 er án nokkur vafa Veronica Lario. Lítið snöggvast á þessa grein og takið eftir Freudiska slippinu sem birtist í röð setningarliða.

Eiginkona Silvio Berlusconis, Veronica Lario, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hefur krafið eiginmanninn um opinbera afsökunarbeiðni vegna ummæla hans um aðra konu opinberlega.

 

Móðursýkin

Sonur minn Byltingin og Rósin sluppu lifandi úr eldsvoða nú um daginn. Gistu í trjáhýsi í 10-12 metra hæð og Haukur vaknaði við sviða í kokinu. Allt fullt af reyk og mér skilst að það sé ekkert grín að brölta hóstandi í gegnum brennandi tuskur og greinar og þurfa svo að klifra niður úr háu tré í niðamyrkri. Þau sluppu samt ósködduð og skógurinn líka. Af öllum frábæru ævintýrunum sem hann er búinn að segja mér frá er þetta það eina sem ég sé virkilega fyrir mér.

Rósin farin til Indlands og Byltingin einn á þvælingi um Evrópu. Mér fannst skárra að vita af honum með henni. Vil bara fá hann heim aftur sem fyrst og vita hann sofa innan dyra í alvöru húsi, þar sem er til sjúkrakassi og borða óhollan mat sem er búið að elda og setja á disk en ekki eitthvað gras sem hann finnur á víðavangi. Og svo vil ég líka fá að geyma vegabréfið hans sjálf.

 

Syntax error

Ég hef oft kastað ástargaldri. Ekki nýlega að vísu, því ég er ekki rétt innstillt þessa dagana, en ég reyndi 4 sinnum árið 2006. Þótt aðrir galdrar hafi verið mér frekar auðveldir á síðasta ári, hefur ástargaldurinn bara fært mér menn sem eru að vísu stórfínir en hafa bara engin áhrif á hormónastarfsemina í mér og svo einn fávita sem hypjaði sig brott af eigin frumkvæði áður en nokkur skaði var skeður. Halda áfram að lesa

Trúarbrögð

Ég stend í eilífu stríði við pöddur og vírusa og hef því verið að hugsa um að fá mér Makka, sem ku víst ekki vera jafn lúsasækinn. Bar málið undir tölvugúrú tilveru minnar um daginn og það var engu líkara en að ég hefði Sússað í návist kaþólskrar nunnu. Jújú, hann skrifar svosem alveg undir að þar sem ég noti tölvur svo til eingöngu til ritvinnslu og geri fátt annað á netinu en að blogga, lesa blöðin og skrifa tölvupóst, þá geti Makkinn svosem dugað en Pésinn sé samt sem áður einfaldlega betri. Hvað það merkir er hinsvegar eitthvað óljóst. Hann heldur því líka fram að þótt Makkinn sýkist síður þá geti það alltaf gerst og það sé bara meiri háttar aðgerð að laga það.

Ég hef ekki heyrt neinar sjúkrasögur af Makkatölvum en ég þekki heldur engan sem notar Makka. Hef grun um að þessi andúð vinar míns á Makkanum eigi meira skylt við trúarbrögð en reynslu en velti því líka fyrir mér hvernig standi á því að Pésinn, iðandi af ógeðspöddum, sé svona miklu vinsælli. Er það vegna tölvuleikjafíknarfjandans eða er hann „einfaldlega betri“? Viðbrögð óskast.

 

Sendi fávita í fýluferð

Ef einhver segði mér allan sannleikann um sjálfan sig í netspjalli þætti mér hann annaðhvort óvenju óspennandi eða afspyrnu heimskur. Sennilega hvorttveggja. Ég reikna ekki með að fá rétta mynd af manni í gegnum msn. Ef það væri hægt gæti maður allt eins stofnað til internethjónabands. Ég ætlast ekki til að í lífi manns á fertugsaldri sé allt slétt og fellt, er ekki einusinni viss um að það væri eftirsóknarverður karakter en ég ætlast hins vegar til þess, þegar einhver vill hitta mig, að þær upplýsingar sem hann gefur mér áður standist. Halda áfram að lesa

Veiðimannseðlið

Hugz segir í kommenti:

Veiðmannseðlið er innbyggt í tegundina, þú kemst ekki hjá því. Ef það vantar þá ertu að tala um einhverja hliðartegund eða þá að þú hefur rekist á geimveru á djamminu. Sem kæmi svo sem ekki mikið á óvart miðað við sumt sem maður rekst á þar.

Eitt get ég sagt þér um kynni mín af veiðimönnum góurinn minn: Halda áfram að lesa