Klirrrrrrrrrrrrr

Hékk á einkamal.is langa hríð í gær. Eftirtaldir hlutu ekki náð fyrir augum vorum:

-Gaurinn sem sagði: Ég er mjög fyndinn.
Fyndið fólk þarf ekki að benda manni á hvað það er fyndið.

-Gaurinn sem sagði: Ég er frumlegur og mjög sérstakur karakter.
Mín reynsla er sú að þeir sem telja sér það til tekna að vera sérstakir, eru yfirleitt ekkert sérstakir að öðru leyti en því að þeir hafa svo veika sjálfsmynd að þeir þurfa alltaf að rembast við að vera sérstakir.

-Gaurinn sem sagðist vera að leita að föstu sambandi og spurði svo strax á eftir hvað fílar þú best í kynlífi?
Sá sem spyr um smekk minn í þessum efnum áður en hann veit hvort ég á börn og hvað ég geri, er ekki að leita að föstu sambandi.

-Gaurinn sem sagðist vera háskólamenntaður, hlusta mest á klassíska tónlist vera að leita að föstu sambandi, kom yfir á msn og sendi mér þá mynd af sínum eigin gleðipinna, sem í samanburði við eldspýtustokkinn sem einnig prýðir myndina, virðist vera á stærð við ljósastaur. Ég vona að lesendur mínir átti sig á því án frekari skýringa hversvegna ég ætla ekki að eyða tíma í þennan.

Ég held að ég sé búin að útiloka um 400 manns. Það er samt ekki nema um helmingur þeirra sem ég blokkeraði af því að þeir eru augsýnilega fávitar. Sumir eru bara reykingamenn, barnlausir eða ekki á réttum aldri. Ég er í msn-sambandi við 4 sem virðast allavega í lagi. Ef hlutföllin á e-m eru 4 frambærilegir á móti 200 fávitum og 200 í viðbót sem af öðrum orsökum koma ekki til greina, þá eru líkurnar á því að finna mann sem fellur í markhópinn minn á einkamal.is álíka miklar og að finna mann með geðklofa. Hvernig ætli hlutföllin séu á djamminu?

Ef ég verð komin yfir tímabundna raunsýn mína á tegundina í vor, er ég að hugsa um að skrá mig í læknisfræði. Ég hef engan áhuga á læknisfræði en þá gæti ég allavega hitt stráka á kaffistofunni og látið sem ég hefði engan áhuga á þeim. Það ku víst vera besta trixið til að gera þá ástsjúka. Auk þess fyndi ég kannski upprennandi geðlækni sem gæti læknað mig af þeirri þráhyggju að ég verði eitthvað ánægðari ef ég þarf að deila fataskáp með karlmanni. Þetta er náttúrulega bilun.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Klirrrrrrrrrrrrr

  1. —————————————————

    Það væri nú eiginlega bara óskandi fyrir þig að þú endaðir í læknisfræðinni og hittir á læknisfræðinema sem ætti það tvennt sameiginlegt að vera nógu heimskur til að hafa áhuga á þér en samt það greindur að hann gæti á einhvern hátt greint þá stórkostlegu bilun sem þú ert auðsjáanlega haldin á flestum sviðum.

    Posted by: Gunga sem sendir inn persónulegar móðganir án þess að segja deili á sér,

    Posted by: Anonymous | 2.02.2007 | 10:39:12

    —————————————————

    Sæll ip tala 82.112.82.3

    Takk fyrir að kommenta á vefbókina mína. Fólki er að sjálfsögðu velkomið að opinbera karakter sinn með því senda inn að persónulegar svívirðingar en æskilegt er að þeir sem gera það komi fram í eigin persónu. Hér með tek ég upp þá reglu að nefna sjálf þá sem senda inn komment af þessu tagi.

    Posted by: Eva| 2.02.2007 | 11:03:44

    —————————————————

    Hmm, Ráðhús Reykjavíkur …

    Posted by: Elías | 2.02.2007 | 11:24:21

    —————————————————

    Er þetta nokkuð Villi ?

    Posted by: Hugz | 2.02.2007 | 11:37:44

    —————————————————

    Þessi ábending mín hefur greinilega fallið í grýttan jarðveg og skil ég það nú eiginlega ekki þar sem þú hefur margoft líst því yfir sjálf í skrifum þínum að þú værir stórkostlega biluð kona en þú ert kannski ein um að meiga hafa þá skoðun á sjálfri þér. En til útskýringar þá var þetta nú alls ekki meint sem móðgun en aðeins ábending þar sem;
    a)þú ert í makaleit
    b)heimskur læknanemi væri nú ekki slæmur kostur þar sem jafnvel væri hægt að temja hann til sambúðar og um leið hafa af honum afnot til geðlækninga ef slík vandamál skjóta upp kollinum á heimavelli

    Posted by: magnús „gunga“ magnússon | 2.02.2007 | 11:42:58

    —————————————————

    eftir að hafa fengið allan fataskápinn fyrir mig eina held ég að væri nánast útilokað að fara að deila honum aftur.

    Posted by: inga hanna | 2.02.2007 | 19:10:55

    —————————————————

    Það var ekki hugsað sem móðgun að það þyrfti heimskingja til að hafa áhuga á mér, heldur „vinsamleg ábending“! Ruglið ríður ekki við einteyming hér fremur en á einkamal.is

    Magnús, varst það nokkuð þú sem sendir mér myndina af kjánaprikinu og eldspýtustokknum???

    Posted by: Eva | 2.02.2007 | 23:10:30

Lokað er á athugasemdir.