Syntax error

Ég hef oft kastað ástargaldri. Ekki nýlega að vísu, því ég er ekki rétt innstillt þessa dagana, en ég reyndi 4 sinnum árið 2006. Þótt aðrir galdrar hafi verið mér frekar auðveldir á síðasta ári, hefur ástargaldurinn bara fært mér menn sem eru að vísu stórfínir en hafa bara engin áhrif á hormónastarfsemina í mér og svo einn fávita sem hypjaði sig brott af eigin frumkvæði áður en nokkur skaði var skeður.

Ég veit að það er ekkert að galdrinum, margar konur hafa notað hann með góðum árangri, svo ég hlaut að vera að gera eitthvað vitlaust.

Á föstudagskvöldið áttaði mig á því, mjög skyndilega hvað ég hef gert vitlaust. Eftir allar þessar tilraunir mínar til að finna mér maka, var það einkamal.is sem kom mér í skilning um villuna.

Ég var að fara yfir einkamála-samskipti mín og sá að einhver hefur spurt hvernig minn draumaprins sé. Ég svara með öllu sem hann má EKKI vera. Ekki óreglumaður, ekki með allt niður um sig í fjármálum, ég skrifaði m.a.s. ekki barnlaus! Ég trúi þessu varla upp á sjálfa mig. Þarna hef ég verið að flýta mér og bunað einhverju út úr mér í „hugsunarleysi“ sem er í raun stórhættuleg hugsun. Það sjokkerar mig mest að við hverja setningu sem ég las kviknaði mynd af einhverjum sem ég vil ekki eða einhverjum sem er ekki í boði. Sem merkir auðvitað að undirmeðvitund mín er hreinlega viðbrunnin af röngum ímyndum.

Galdur byggir á þeirri hugmynd að hugsanir verði að veruleika og þá skipti engu máli hvort þær eru jákvæðar eða neikvæðar, hvort maður á skilið að fá óskir sínar uppfylltar eða hvort væntingar manns eru raunhæfar. Það skiptir heldur engu máli hvort maður setur „ekki“ fyrir framan, maður fær það sem maður er upptekinn af hvort sem maður vill það eða ekki. Ég er auðvitað alveg meðvituð um þetta og þessvegna á ég t.d. með skriflega lýsingu á mínum manni, sem felur eingöngu í sé það sem ég vil, ekki það sem ég vil ekki.

Ég áttaði mig á því þarna á föstudagskvöldið að ástæðan fyrir því að ég hef ekki fundið þennan stórkostlega mann, er ekki sú að hann sé ekki til, heldur sú að mánuðum saman hef ég hugsað „fjölskyldumaður sem vill sambúð til næstu 60 ára“ kannski 5 mínútur á viku, með engan sérstakan í huga en „ekki einhvern gosa sem hefur engan tíma fyrir mig“ 2 klukkutíma á dag og sé um leið ljóslifandi fyrir mér einhvern örlagaskíthæl með hrífandi bros. Að vísu er ég þó búin að ná þeim áfanga að afþakka strax það sem hentar mér ekki en það er auðvitað ekki nóg. Villan liggur þannig að hluta í því að ímynd þess sem ég vil samanstendur af skuggum og útlínum og er því 10 sinnum veikari en ímyndir þess sem ég vil ekki og að hluta í því að þegar ég fór loksins að tengja andlit við fjölskyldumanninn, þá voru það andlit sem ég vildi ekki. Og þar sem ég hugsa svona mikið um það sem ég vil ekki, er það nákvæmlega það sem rekur á fjörur mínar.

Feillinn varð ennþá augljósari þegar ég ræddi málið við norn sem ég þekki. Sagði henni að mig vantaði ímynd. Hún spurði hvernig óskamaðurinn liti út og ég gat ekki svarað því! Það eina sem ég gat sagt var að hann ætti að vera með hlýtt bros og það ætti að vera góð lykt af honum. Þarf vart að taka fram að ég þekki sæg drullusokka sem brosa fallega og lykta vel.
-Viltu hafa hann dökkhærðan? spurði hún og mynd af fávita sem særði mig fyrir mjög mörgum árum poppaði upp. Ég reyndi að skipta yfir í ljóshærðan og sá þá fyrir mér mannsorp nokkurt sem skildi ekki bara eftir ör á sálinni í mér, heldur dauða bletti líka.
-Rauðhærðan? Ég flýtti mér að blokkera myndina með tölvuskjá sem segir „SYNTAX ERROR“.

Að lokum kom okkur saman um að það skynsamlegasta væri að nota þá unglingslegu aðferð að tengja andlit einhverrar bíómynda- eða sjónvarpsþáttapersónu við lýsinguna. House kemur augljóslega ekki til greina, þótt ég sé hrifin af þátturnum. Ég er bálskotin í Alan Shore en þarf víst ekki að skýra nánar hvers vegna ég ætla ekki að sökkva mér í draumóra um þann sorabelg. Johnny Depp er fallegasti karlmaður veraldar en ég hef aldrei séð hann í hlutverki sem ég get tengt við æskilegan maka. Jack Sparrow er ekki beinlínis fjölskylduvænn og Satan og allir englarnir forði mér frá því að giptast Johnny Cash. Lausnin er semsé gullfallegur leikari, sem ég hef aldrei séð í hlutverki manns með slæma perónubresti eða ábyrðarlauss flagara. Hallærislegur lúði er heldur ekki á óskalistanum og Hugh Grant og Adam Sandler þar með úti úr myndinni.

Þetta verður skrýtinn sunnudagur. Í dag ætla ég að planta æskilegri eiginmannsímynd í hausinn á mér. Ég mun ekki þrífa, mála rúnaborð, ráða sunnudagskrossgátuna eða tæta Tarsanbrúskana úr handarkrikunum á mér með vaxstrimlum, heldur að horfa á bíómyndir sem nornin hefur sérvalið fyrir mig, með ákveðnum karlleikara í aðalhlutverki. Ég er svo brjálæðislega heppin að fara svo sjaldan í bíó að okkur tókst að finna dáfagran leikara sem ég hef aldrei séð í hlutverki sem gæti klúðrað ímyndinni.

Þetta verður góður dagur.

———————

þetta fannst mér merkileg lesning.

fyrir mér er útlitið algjört aukaatriði þegar karlmenn eru annars vegar, gæti fallið fyrir Sigurjóni Kjartans, Jóni Gnarr, Guðna Ágústs, jafnvel Margeiri hennar Önnu ef brosið væri hlýtt, lyktin rétt og glimtið í auganu akkúrat einmitt….(og maðurinn á lausu auðvitað skilyrði)

gangi þér vel að finna draumahylkið utan um sálufélagann og góða skemmtun;)

Posted by: baun | 11.02.2007 | 11:33:39

———————

Þetta vakti mig heldur betur til umhugsunar. Hef verið föst í þessum sama fasa, ekki bara hvað varðar hugsanlegan lífsförunaut, heldur einnig varðandi vinnumál. Alltaf að hugsa um hvað ég vil EKKI, þegar ég á að hugsa um það sem ég VIL.
Þarf að endurforrita.
Heyrði einnig aðra góða pælingu um daginn, hef allt of oft staðið mig að því að hugsa um eitthvað fólk sem ég veit í raun ekkert um, en hef kannski talið að lifði því lífi sem ég vil lifa og óskað þess að ég væri eins og þau……… lifði þeirra lífi…..en kannski er líf þeirra einn skítur á bakvið frontinn og óskir mínar því eilíft að rætast. Hmmm?

Mér finnst samt gott að vita að fleiri en ég bera perverskar tilfinningar til Alans Shore án þess að geta útskýrt það.

Posted by: lindablinda | 11.02.2007 | 13:10:28

———————

það lekur af Alan Shore kynþokkinn, skil ekki af hverju…

Posted by: baun | 11.02.2007 | 13:18:26

———————

þetta er merkilegt!
annars veit ég um einn alfullkominn sem ég hefði gjarnan vilja klippa útúr bíómynd og lifa happily ever after. held ég noti hann í mína skilgreiningu.

Posted by: inga hanna | 11.02.2007 | 16:41:08

———————

Send´ann til mín Inga Hanna. Ég er búin að heita hundraþúsundkalli á þann sem kynnir mig fyrir framtíðarmaka mínum.

Posted by: Eva | 12.02.2007 | 8:10:03

———————

hann er auðvitað bara bíókarakter eins og þessir alfullkomnu fyrir okkur allar! dettur fáum í hug að þeir séu til í alvörunni, því miður…

Posted by: inga hanna | 12.02.2007 | 8:40:16

Best er að deila með því að afrita slóðina