Uppeldishlutverki mínu er formlega lokið. Ég reikna með að viðhalda móðurlegri afskiptasemi minni á meðan drengirnir (sem eru ekki lengur drengir heldur piltar) búa heima en frá og með deginum í dag á ég ekki börn, heldur uppkomna syni.
Örverpið er semsagt 18 ára í dag. Hann verður seint talinn dæmigerður unglingur en ef ég skýri það nánar mun ég baka mér Ygglbúnarheilkennið dögum saman. Ef ég útskýri hvað ég á við með Ygglibrúarheilkenninu verður það „Ygglibrún með vaaauuuvaaaaauuu effekt“ (sem ég gaf honum í afmælisgjöf af móðurást fremur en umhyggju fyrir eigin geðheilsu), svo það er víst ráðlegast að segja sem minnst.
Byltingin hringdi áðan og gerði grein fyrir ferðum sínum. Hann er að kanna möguleikana á því að sækja um styrki til háskólanáms í Bretaveldi. Mér finnst gott mál að ungt fólk taki eitthvað nám erlendis en mér finnst það samt einhvernveginn allt annað þegar þetta unga fólk er synir MÍNIR. Væri alveg til í að hann færi á vegum AFS, fengi fósturforeldra og stuðningsfulltrúa og allt það. En hann er víst 3 árum of gamall til þess. Hann er svosem ekkert ákveðinn, bara að skoða málið en ég ætla samt að bíða með að festa kaup á húsnæði sem hentar okkur öllum þar til ég veit hvort hann verður hér næsta vetur eða ekki.
Mér líður ekki eins og ég sé að verða gömul. En mér líður eins og ég sé að missa stjórn á aðstæðum.
———————————–
Til hamingju með piltinn.
Gott líka að þú fékkst að heyra í þeim eldri í dag 🙂
Posted by: Harpa | 15.02.2007 | 22:07:11
———————————–
Allt partur af prógramminu. Til lukku með unga manninn.
Posted by: lindablinda | 15.02.2007 | 22:40:32
—————————————————-
til hamingju með stóra strák 🙂
Posted by: hildigunnur | 15.02.2007 | 22:43:59
—————————————————-
hjartanlega til hamingju með soninn:)
Posted by: baun | 15.02.2007 | 22:58:39
—————————————————-
Síðbúnar hamingjuóskir með vatnsberann þinn og með að formlega uppeldishlutverkinu sé lokið. Ár eftir hjá mér. Móðurlega umhyggjan sýnist mér aldrei hafa verið meiri sem og áhyggjur af afkvæmunum, en hjá vinkonum mínum sem eiga börn milli 18 og 25. Gangi þér vel!
Posted by: Sigga | 17.02.2007 | 12:01:51