Meladrama

Ég hef áhyggjur af henni Önnu minni. Hún er ekki alveg með sjálfri sér þessa dagana enda ekki við því að búast. Ég hugsa að fáar konur kæmust í gegnum annan eins ástarþríhyrning án þess að fara yfir um.

Mér fannst það vera hárétt ákvörðun hjá henni á sínum tíma að gefa Jude reisupassann. Hún var búin að segja honum að það væri ekki séns í helvíti að hún ætlaði að standa í fjarbúð og því síður kæmi til greina að rífa krakkana upp og flytja með þau inn í einhverja stjörnukomplexageðveiki, hann yrði bara vessgú að sætta sig við að búa á Melunum ef þau ættu að vera saman. Jude, náttúrulega vanur því að kvenfólk flaðri upp um hann, tók ekkert mark á henni og fór út. Nema hvað; hún elti hann ekki! Það fannst Jude skrýtið og hann var marga mánuði að kveikja á því að Anna var ekkert í einhverjum leik. Henni var bara fúlasta alvara.

Ég get svosem vel skilið að Jude, sjarmur sem hann er, skyldi grípa til þess ráðs að senda þennan snarbilaða bróður sinn til að tékka á henni. Maðurinn er náttúrulega ekkert vanur því að þurfa að hafa fyrir hlutunum sjálfur. En samt! Var ekki alveg fyrirsjáanlegt að Ken myndi stinga undan honum? Ég meina, maðurinn er uppalinn hjá þessu sirkushyski sem rændi honum úr vöggu, hann er glæpamaður, hann er með heimsyfirráðakomplexa og á margan hátt líkari þessum skúrkum sem Jude hefur leikið í gegnum tíðina, heldur en Jude sjálfur. Var eitthvað við því að búast að Ken virti bræðrabönd? Anna er auðvitað engin venjuleg kona, Jude hafði ekki gefið henni svo mikið sem gult ljós á að flytja á Melana og sitja fyrir í Hagkaupsblaðinu og þegar allt kemur til alls eru bræðurnir nauðalíkir.

ken

 

KEN -myndin er tekin daginn áður en hann stakk af með Al Qaida og skyldi Margeir eftir hjá Önnu.
Þegar þarna var komið sögu stefndi þetta allt saman í að verða hins mesta sápa en þetta var bara byrjunin. Ken semsagt kemur til landsins og gistir hjá Margeiri, dverg sem á tímabili þvældist um með sama sirkus og Ken en var rekinn vegna hæfileikaleysis og leti. Margeir býr með bróður sínum, Lifur og ekki vill betur til en svo að Lifur er fyrrum elskhugi Önnu og verður ekkert smá afbrýðisamur þegar hann kemst að erindi Kens á Íslandi. Margeir búinn að vera meira og minna inni á gafli hjá Önnu síðan þau Lifur slitu sambandinu og gefur Ken allar nauðsynlegar upplýsingar um Önnu og nú bregst Lifur við með því að henda Margeiri út! Margeir eltir Ken til Önnu og hefur þar vetursetu.

Satt að segja er þetta bara búið að vera dálítið erfitt hjá henni Önnu undanfarið og lengi má sápan freyða. Nógu erfitt að standa í ástarsambandi við heimsfrægan leikara þótt bróðir hans glæponinn og dvergur fyrrum elskhuga hennar bætist ekki við. Ken liggur ennþá í kóma, Anna í rusli, sér ekki fram á að verða ólétt á meðan hann er í þessu ástandi, hætt að blogga og allt, og hvað gerir Jude þá? Birtist á tröppunum hjá henni, óforvarindis, með alla krakkana og barnfóstru með sér. Segist vera „hættur við drusluna“ og tilbúinn til að flytja á Melana. Búinn að panta Holtið fyrir þau á þriðjudagskvöldið og nanný alveg til í að passa Dodda líka.

jude

 

JUDE -myndin er tekin í saumaherberginu hennar Önnu rétt eftir að hún sagði honum upp. Eins og sjá má er hann gjörsamlega miður sín.

 

Ég er virkilega stolt af Önnu. Hún sagði honum að hún væri því miður að fara að hitta nokkrar dindilhosur á þriðjudagskvöldið en ef hann hefði eitthvað sérstakt við hana að tala, gæti hún reynt að troða honum inn í dagskrána einhvern næstu daga.

Það sem ég hef áhyggjur af er að Anna velji kannski ekki alveg rétt. Í gær sagði hún að það væri auðvitað ekkert hægt að bjóða börnunum upp á að búa með manni sem geymir kjarnaodda í eldhússkápunum, jafnvel þótt hann næði sér að fullu en Jude væri heldur ekkert annað en smástrákur með lopahúfu, alls ekki jafn illilegur og í bíó og að ég mætti bara eig’ann. Ég vona bara að hún jafni sig. Jude er allavega mun betri húskostur en Ken.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Meladrama

 1. ——————————————————–

  já, það er óskaplega mikið á Önnu lagt, að standa í svona freyðandi rugli.

  takk fyrir síðast, þú föngulega kona og eðalkokkur:)

  Posted by: baun | 14.02.2007 | 10:56:14

  ——————————————————-

  gott að einhver lætur okkur vita hvað er að gerast hjá Önnu, manni stendur bara ekki á sama um alla þessa þögn :-O

  Posted by: hildigunnur | 14.02.2007 | 12:10:40

  ——————————————————–

  Það er svosem ekki við því að búast að blessuð stúlkan geti staðið í því að blogga með nýjasta kærastann í dái uppi á spítala, bróður hans á útihurðinni með 3 grislinga og snarvitlausan dverg úti á svölum.

  Posted by: Eva | 14.02.2007 | 14:53:39

  ——————————————————–

  Þarf ekki að fara fram grenndarkynning ef fólk ætlar að hafa svona dverga úti á svölum til langframa?

  Posted by: AlanHudson | 14.02.2007 | 17:47:55

  ——————————————————–

  The poor wish to be rich, the rich wish to be happy, the single wish to be married and the married wish to be dead.

  Ann Landers

  Posted by: handsomedevil46 | 15.02.2007 | 14:19:54

Lokað er á athugasemdir.