Veiðimannseðlið

Hugz segir í kommenti:

Veiðmannseðlið er innbyggt í tegundina, þú kemst ekki hjá því. Ef það vantar þá ertu að tala um einhverja hliðartegund eða þá að þú hefur rekist á geimveru á djamminu. Sem kæmi svo sem ekki mikið á óvart miðað við sumt sem maður rekst á þar.

Eitt get ég sagt þér um kynni mín af veiðimönnum góurinn minn:

Enginn þeirra karlmanna sem hafa misst áhugann á mér, af því að þeir voru of miklir veiðimenn til að þola konu sem tekur frumkvæði og er tiltölulega sjálfbjarga, eða fyrirgerðu áhuga mínum á nánari kynnum með því að draga það dögum saman að hafa samband (ljótt trix sem karlar nota til að virkja eðlislægan undirlægjuhátt kvenna, venjulega afsakað með veiðináttúrunni), hafa nokkurntíma sýnt frummannlega viðleitni til þess að vernda mig, annast, sjá fyrir mér eða berjast fyrir mér. Ekki svo að skilja að ég þurfi á bjargvætti að halda. Ég er nútímakona en ekki „damsel in distress“. Ég hef alltaf passað mig sjálf og hef hugsað mér að gera það áfram. En merkilegt finnst mér að þeir menn sem hafa sýnt mér umhyggju og boðið mér aðstoð, virðast yfirleitt hafa prýðisgóða stjórn á þessu villta frumeðli sínu. Þeir fara kannski á rjúpnaveiðar, fínt hjá þeim, en þegar kona sem þeir hafa gert hosur sínar grænar fyrir, hringir að fyrra bragði og býður þeim í mat, verða þeir ekki gripnir stjórnlausum skuldbindingarkvíða, heldur mæta þeir á réttum tíma og taka borvélina með sér. Jafnvel blóm líka!

Kæri nútíma karlmaður sem aldrei hefur losað músagildru hvað þá meir. Andskotastu til að sýna konunni sem þú sefur hjá þá tillitssemi að hafa það á hreinu hvort hún skiptir þig einhverju máli eða er bara hugsuð sem leikfang til skamms tíma. Ef þig vantar markmið til að eltast við fáðu þér þá tölvuleik. Eða, svo ég noti nú skýr skilaboð sem jafnvel karlmaður getur skilið:
Taktu þitt villta veiðimannseðli og troddu því upp í Byrgið á þér.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Veiðimannseðlið

  1. ——————————————————-

    ef veiðmannseðlið er innbyggt í tegundina homo sapiens, er það þá ekki til staðar í báðum kynjum?

    sjálf tel ég mig vita hvað Eva er að tala um hér, fálæti karla gagnvart konum sem sýna áhuga sinn án falskheita og leikaraskapar, tala nú ekki um ef þær sýna frumkvæði og áhuga á kynlífi. margir karlar virðast vilja eltast við „hard to get“ konur, helst konur sem spila með þá og draga á asnaeyrunum.

    skil ekki karlmenn. skil ekki konur. skil ekki baun.

    Posted by: baun | 31.01.2007 | 14:58:27

    ——————————————————-

    Ég held að við séum ekki að tala um sama veiðimanninn góða mín. Þú ert að tala um einhvern Ahab sem er úti að reyna að skutla í matinn eða rúmið. Ég er að tala um aðeins þróaðri tegund. Eða aðeins bældari veiðmann. Þennan sem vill „veiða“ í matinn í Hagkaup eða „veiða“ sér föt í Smáralindinni. Svo jafnvel veiða eina rjúpu á ári ef því er að skipta. Veiðieðlið hefur margar hliðar og það eru ekki allir karlmenn þarna úti frændur Ahabs. Þessir sem koma með blóm til þín eru það trúlega ekki. Það má hins vegar ekki rugla þessu veiðieðli saman við hjálpsemi. Karlmaður má alveg bora í vegg fyrir konu án þess að úr því sé gert stórmál. Hinn siðmenntaði heimur mun ekki hrynja þótt kona bori í vegg fyrir karlmann. Það eru einfaldlega meiri líkur á að karlmenn eigi almennileg verkfæri. Þetta er bara tölfræði …

    Posted by: Hugz | 31.01.2007 | 14:58:49

    ——————————————————-

    Smá athugasemd við orðalag Hugzs (læt eignarfallsessið fljóta með).

    Reyndar er það tölfræði, að fleiri karlar eiga almennileg verkfæri en konur. Og að sama skapi er það líkindafræði, að það eru meiri líkur á að karlmaður valinn af handahófi eigi almennileg verkfæri en kona valin af handahófi.

    Þetta segi ég algjörlega óháð því hvort sú fullyrðing, að fleiri karlmenn eigi almennileg verkfæri en konur, eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum.

    Posted by: Stærðfræðinasistinn | 31.01.2007 | 15:09:28

    ——————————————————-

    Ég held reyndar að það sé alveg rétt að karlmaðurinn hafi sterkari tilhneigingu en konan til þess að fá kikk úr úr því að þurfa að „eltast við bráðina“. Ég held líka að konur séu fljótari að gefast upp og biðja um hjálp. Hvorugt er þó geðslegt þegar það er notað sem afsökun fyrir lélegri framkomu.

    Posted by: Eva | 31.01.2007 | 16:33:41

    ——————————————————-

    Annars held ég að það sé ekki gott að Byrgja veiðimannseðlið of mikið inni …

    Posted by: Hugz | 31.01.2007 | 20:17:11

    ——————————————————-

    Ég hef aldrei skilið hvað fólk á við með veiðimannseðli. Ef kvenmaður sýnir ekki áhuga læt ég mig hverfa. Það er nóg af öðrum fiskum í sjónum.

    Posted by: Elías | 1.02.2007 | 4:42:53

Lokað er á athugasemdir.