Hugskeyti

Í gamla daga notaði fólk helgarnar til að dýrka guðinn sinn og það hefur ekkert breyst. Fór bæði í Smáralind og Kringluna í gær og á báðum stöðum var allt troðfullt af heittrúuðum Mammónsdýrkendum.

Hitti fullt af fólki sem ég kannast við, m.a. hina mölétnu konu Ljúflingsins. Hún brosti stirðlega. Sá á henni langar leiðir að tilvist mín fer í taugarnar á henni. Hún veit af mér. Það heitir opið samband og virkar rosalega val þar til makinn opnar líka sín megin.

Æ hafðu ekki áhyggjur. Ég er engin ógn við samband ykkar. Það byggist á gagnkvæmri kúgun og er í eðli sínu ólíkt þeirri vináttu sem ég á við manninn þinn. Hann gæti aldrei búið með konu sem sýnir honum virðingu og tillitssemi og krefst þess sama frá honum. Slíkar konur eru bara til í ævintýrum og fólk verður að upplifa ævintýri af og til.

Og þú sem mætir mölétin til Mammonsmessu en setur mölkúlur í ferðatöskurnar þínar og tekur fram varalit í flugvélinni á leið til Hvergilands. Heldurðu virkilega að hann viti ekki um ævintýrin þín?

Eða eru það kannski hugmyndir mínar um réttlæti Mammons sem fara fyrir brjóstið á þér? Ertu hrædd um að ég neyði Ljúflinginn til að horfast í augu við aðstöðu þína til að féfletta hann? Hefurðu áhyggjur af því að ég svipti þig tækifærinu til að hagnast án fórna?

Gjugg í borg. Allt hefur sinn verðmiða. Mammon líka.

Maður má smakka eitt

Í búðinni var aðeins einn viðskiptavinur fyrir utan mig. Hann leit út fyrir að vera um sextugt og lifa á saltketi og rjóma. Ég hefði sennilega ekkert tekið eftir honum nema vegna þess að hann stóð við sælgætisbarinn og gúllaði í sig.

Ég talaði ekki við hann, enda ekki í mínum verkahring að upplýsa aðra kúnna um hefðir í viðskiptaháttum en kannski hefur mér orðið það á að sýna svipbrigði sem lýstu undrun. Allavega vatt hann sér að mér og sagði með fullan gúlinn af hlaupi og brjóstsykri; ég smakka nú alltaf á þessu áður en ég kaupi það, maður verður að vita hvað maður er að kaupa.
-Jáhá, sagði ég vantrúuð.
Maður má það alveg. Maður má alveg smakka eitt, sagði maðurinn og tróð upp í sig lakkrís.
-Já er það virkilega? Ég vissi það ekki, sagði ég.

Ég hafði eiginlega verið að hugsa um að kaupa eitthvað en hætti við. Hann notaði ekki áhöldin og þótt fólk sé sjaldan eitrað var einhvernveginn eins og mig langaði ekki í neitt lengur. Ekki heldur þótt ég hefði þarna fengið formlegt leyfi til að smakka eitt, þá væntanlega eitt af hverri tegund.

Fjölmiðlar eru vinir okkar

Fjölmiðlar eru góðir við okkur.

Fréttablaðið er m.a.s. búið að gefa okkur vikulega smáauglýsingu alveg án þess að við höfum farið fram á það. Að vísu báðum við um þessa sömu auglýsingu daginn fyrir síðustu tunglfyllingu enda talað um tilboð á spilum ofl. „í tilefni af fullu tungli“.
Auglýsendur Fréttablaðsins virðast telja okkur nógu göldróttar til að stjórna tunglhringnum, allavega hafa þeir auglýst fullt tungl á hverjum þriðjudegi síðan.

Í gær kom kona sem hafði gert sér ferð ofan úr Borgarnesi til að kaupa Mantegna spilin (sem ég held að fáist hvergi annarsstaðar á landinu)með 20% afslætti, svo ég verð að játa að mér finnst þetta hálfgerður bjarnargreiði hjá Fréttablaðinu.

Hressmann

Undanfarið hef ég verið svo rotuð á morgnana að ég hef ekki komið mér fram úr fyrr en upp úr kl 7. Þótt ég sé morgunhýr að eðlisfari verð ég að viðurkenna að ofþreyta eyðileggur alveg þann taumlausa fögnuð sem venjulega fylgir því að hefja hringrásina vinna-þvottur-önnur vinna-Bónus-matseld, meiri vinna. Það er sem ég segi; svefnóreiða kann ekki góðri lukku að stýra til lengdar og hefur undarlegustu atvik í för með sér. Halda áfram að lesa

Orkusteinar

-Rosalega er góður kraftur í þessum steinum, maður finnur alveg strauminn frá þeim, sagði konan og kreisti jaspis svo hnúarnir hvítnuðu.
-Hvernig straum? spurði barnið.
-Þetta er orkusteinn. Finndu, finnurðu ekki kraftinn frá honum? svaraði móðirin og rétti barninu steininn.
Barnið horfði forviða á móður sína og mér fannst þetta satt að segja komið út í rugl. Halda áfram að lesa

Spádómar Pysjunnar

Í hvert sinn sem ég hef rætt áform mín um að fara út í fyrirtækjarekstur hafa vinir og vandamenn látið eins og ég sé að bjóða mig fram sem tilraunadýr fyrir kókaínframleiðendur. Alveg þar til ég sagði þeim að ég væri að opna nornabúð, þá allt í einu urðu allir svona líka jákvæðir og tilbúnir til að peppa mig upp á allan máta.

Nema sonur minn Pysjan. Hann er búinn að spá mér meiri hrakförum og eymd en allir hinir hafa gert samanlagt síðustu 10 árin. Hann kemur heim úr sveitinni á morgun. Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum líst á.

Dram

Dramatíkin hófst handa við það strax í gærkvöld að reyna að eyðileggja helgina og hefur haldið þeim tilraunum áfram í dag. Greyið. Eins og lítill kjölturakki sem getur gjammað á kött út um gluggann en þorir ekki að reka upp bofs þegar hún stendur frammi fyrir alvöru tík. Mér finnst satt að segja hálf neyðarlegt að sjá hana reyna að vera merkilega með sig þegar staðreyndin er sú að enginn tekur fýlunni í henni alvarlega.

Ófyrirsjáanlegt vandamál

Sem spákonur miklar vorum við búnar að sjá fyrir ýmis vandamál. Það hafði þó ekki hvarflað að okkur að skuldafælurnar myndu seljast upp strax á öðrum degi. Að vísu erum við ákaflega hamingjusamar yfir því „vandamáli“ en í augnablikinu veit ég ekki alveg hvernig ég á að búa til tíma til að sinna bókhaldi Uppfinningamannsins og öðrum verkefnum sem ég hef tekið að mér. Halda áfram að lesa

Fávitafælan

Nánast allir sem hafa komið í Nornabúðina hafa kolfallið fyrir Fávitafælunni. Nema bróðir minn Mafían. Ég held að honum finnist dálítið ljótt af mér að hafa útbúið þennan litla, einfalda, neytendavæna galdur.

Galdur

Ég held að gæfugaldurinn sem ég framdi á ákveðnum ungum manni fyrir ca 7 mánuðum hafi haft tilætluð áhrif. Allavega lítur áran hans ekki lengur út eins og hann sé að veslast upp innan frá og hann er þegar búinn að taka tvö af þeim þremur örlagaríku skrefum sem þarf til að hann nái þeim árangri að lifa sæmilega innihaldsríku lífi. Mér sýnist hann vera tilbúinn í það þriðja. Verst hvað trúin þvælist fyrir honum. Eins og reyndar flestum. Halda áfram að lesa

Verði búð og það varð búð – Ný þáttaröð

Í fréttum er þetta helst:

Loksins sé ég fram á að hafa tíma til að sofa, borða, blogga og sinna öðrum frumþörfum mínum. Buðum vinum og ættingjum í kaffi í gær og í dag opnar míns eigins ostagerð; fullkomna búðin okkar Eyrúnar seyðkonu; Nornabúðin -hin eina sinnar tegundar á Íslandi, formlega á Vesturgötu 12. Hinn illi Mammon hefur lagt blessun sína yfir oss, dýrð sé honum. Halda áfram að lesa

Af Píplaugi hinum kvenþreifna

Píplaugur hinn kvenþreifni er að eigin sögn mjög sérstakur maður. Ég tók í spaðann á honum og sýndi honum aðstæður og innan 2ja mínútna var hann búinn að koma því að hann væri skilinn við konuna sína og búinn að ganga óvart utan í mig þrisvar sinnum í þessu 40 fermetra herbergi. Ég fékk strax á tilfinninguna að hann hefði megnið af hugmyndum sínum um starfssvið pípulagningarmanna úr klámmyndum því hann virtist ekki sjá neinn mun á niðurfalli og vatnsinntaki og sagðist ekki geta byrjað fyrr en Pípmundur hinn góði væri mættur. Ég bauð honum kaffi af kurteisi minni á meðan við biðum eftir meistaranum. Kannski hefur hann skilið það sem merki um að ég væri haldin bráðabrókarsótt. Allavega sagði hann mér alveg í óspurðum fréttum að hann hefði ekki kennt kvenmanns í 14 mánuði. Halda áfram að lesa

Uppsöfnuð sápa síðustu viku

1. Pípmundur hinn góði náði með ódýrleik sínum að bræða kalið Mammonshjarta Spúnkhildar. Hjartahlýja Spúnkhildar í garð Pípmundar hins góða olli aftur umtalsverðri taugadrullu amlóða nokkurs sem virðist telja dyggðugri konu best sæmandi að láta sauma saman á sér langrifuna þegar ojminginn í lífi hennar tekur sálarfróun sjálfvalinnar eymdar fram yfir hana. Halda áfram að lesa