Seiður

Spúsa mín seyðkvendið fór á sínum fjallabíl á Snæfellsnesið, magnaði þar seið einn mikinn (eða seyð, maður veit ekki alveg þegar hún er annars vegar) og gól í tunglfyllingu. Sneri til baka með fulla vasa af grjóti, m.a. tvo óskasteina sem hún færði mér að gjöf.

Sjálf undirbjó ég galdrakúnstir í musteri mínu á Vesturgötunni, galaði af mikilli lyst en sökum óheppilegar tímasetningar heimkomu Pysjunnar (sem seinkaði vegna veðurofsa) varð ég að bíða fram á næsta kvöld með að ljúka seiðnum sem ég byrjaði á í janúar þegar ég tók sál vinnufélaga míns á leigu.

Bruggarinn hlýddi kalli mínu og ég teymdi hann niður í dyngju mína.

-Hvað ætlarðu að gera við mig? spurði hann.
-Hvað heldurðu að ég ætli að gera?
-Ég veit það ekki.
-Af hverju hlýðir þú undarlegum fyrirmælum konu sem þú þekkir ekki sérlega vel og sem þú veist ekkert hvað vill þér?
-Á maður ekki að leyfa öðrum að leika sér?
-Ertu farinn að átta þig á því hvert ég fór með þig í janúar og hvað ég gerði?
-Nei, ég hef ekki velt því sérstaklega fyrir mér.
-Þú hefur aldrei spurt mig. Einhver kona bindur fyrir augun á þér, fer með þig á stað sem þú þekkir ekki, leggur fyrir þig tarotspil og þú spyrð aldrei út í það.
-Ætli það skipti nokkru máli hvar ég var eða hvað þú gerðir. Þú verður að fá að hafa þína sérvisku eins og aðrir.
-Þetta er ekki ævintýragirni góði minn, heldur traust, reyndar yfirdrifið traust, eiginlega bara hreint og klárt sinnuleysi.
-Kannski, en þú skildir eftir pening svo ég varð að mæta. Til að skila honum. En svo neitaðirðu að taka við honum.
Ef þér tekst að troða peningum upp á einhvern er það öruggt merki þess að viðkomandi treystir þér nógu vel til að þetta virki. Og hér ertu nú, jafnvel þótt ég hafi ekki troðið neinum peningum upp á þig í þetta sinn.

Við heyrðum hina seyðríku koma inn og ganga á gólfinu fyrir ofan okkur og ég gat ekki betur heyrt en að hún hellti smásteinum úr fötu. Það hlutu að vera góðir steinar.

Ég hitaði nálina í kertaloga.
-Þetta kann að hljóma undarlega en ég nenni ekki að standa í frekari leikjum til að fá það sem mig vantar svo ég verð að biðja þig um það beint.
-Nú? Vantar þig hár af mér?
-Nei elskan, ég náði hári af þér í janúar. Þú manst kannski að ég fór höndum um hárið á þér, hefur líklega haldið að ég væri í frygðarkasti.
-Það getur verið.
-Í þetta sinn vantar mig blóð. Ætlaði að ná frá þér sæði á sínum tíma en þú varst ekki tilkippilegur og ég geng ekki á eftir þér bara til að taka af þér lífssýni.

Ég þreif nálina með spritti og rétti honum.

-Er þér alvara?
-Já ljúfurinn.
-Ég er ekki sérlega hrifinn af nálum.
-Ég get notað sæði ef þér finnst það skárra.
-Nei fjandakornið, sagði hann og stakk nálinni í fingurgóminn.

-Þú hlýtur að trúa á þetta fyrst þú heimtar blóð úr mér, sagði hann um leið og við slökktum logana á kertakrónunni frá Fangóríu.
-Trúir maður á galdur eða er geta mannsins til að hafa áhrif á örlög sín staðreynd? Það er ekkert dularfullt við galdur, bara ýmislegt óútskýrt ennþá. Það hefur einhverntíma gilt um öll vísindi og ég trúi hvorki á djöfulinn né guð þótt ég sé viss um að til séu fleiri lögmál í veröldinni en lögmál orsakar og afleiðingar, svaraði ég. Svo sagði honum að það væri rúmlega klikkað að gefa galinni manneskju blóð úr sér án þess að vita til hvers það væri ætlað.

-Hvað veistu nema ég sé að byrla þér ástargaldur?“ sagði ég.
Hann sagðist nú hafa litla trú á að ástargaldur hrifi á sig.

Ég fór með hann upp til Spúnkhildar, fékk hjá henni tunglmagnaðan stein og býst við að þau hafi reykt í kross á meðan ég lauk galdrinum.

Gæfugaldur hrífur nefnilega á hann, svo mikið er víst og ég get ekki látið sóun hans á hæfileikum sínum afskiptalausa.

Best er að deila með því að afrita slóðina