Sá á kvölina

Tvo óskasteina færði hún mér af Snæfellsnesinu, spúsa mín seyðkonan. Og ég sem venjulega veit nákvæmlega hvað ég vil er í hreinustu vandræðum með að forgangsraða óskum mínum.

Draumaheimilið (án þess að húshaldsvændi fyrir einhvern kóngulóarmann fylgi kaupunum) hef ég þráð síðan ég man eftir mér. Það er því borðliggjandi; ég vil eignast höll sem stendur í skógi vaxinni fjallshlíð og fylla hana af fallegum hlutum sem ég vel alveg sjálf án þess að skoða verðmiðann. Hún á að vera með stórri geymslu í kjallaranum en sú geymsla á að vera næstum tóm og það á að vera spjaldskrá yfir alla hluti sem í henni eru. Það eiga líka að vera margir stórir skápar þar en í þeim á ekkert að vera sem ég nota ekki. Höllin mín á að vera svo flott að enginn þori að bjóða mér dót sem aðrir eru hættir að nota og mér finnst óviðeigandi að afþakka. Höll mín fyrir austan sól á að vera full af listaverkum eftir Gandálf eða einhverju jafn flottu, ef það er þá til. Svo ætla ég að sitja við efsta turngluggann, horfa yfir lendur mínar og skrifa metsölubækur á milli þess sem ég líð um salina með yndisþokka. Síðari óskin vefst hinsvegar fyrir mér.

Rökréttast væri að biðja um tækifæri til að þurfa ekki að gera neitt nema skrifa en það væri ekki sérlega skynsamlegt. Ég er nefnilega einfær um að verða mér úti um tímann sem ég þarf og ekki alveg viss um að ég tími að sleppa öllu hinu sem ég geri við þann tíma.

Ef ég vildi skynsamlega ósk ætti ég að biðja um hug og hjarta  doktorsnefnunnar, hverrar ég hef lengi haft hug á að giftast og hef margsinnis biðlað til án minnsta árangurs. Ég er greinilega ekki einfær um að verða mér úti um akkúrat þann mann. Vandinn er sá að þótt það væri afspyrnu skynsamlegt fyrirkomulag, þá langar mig bara ekki nógu mikið að standa í karlmannahaldi til að ég tími að eyða annarri óskinni minni í eintak af þeirri undarlegu dýrategund.

Ýmsar aðrar skynsemdaróskir eru því marki brenndar að sökum reynsluleysis skortir mig þá þrá sem þarf til þess að hægt sé að kalla þær óskir. Ég hef t.d. aldrei verið heilsulaus og á því erfitt með að æsa upp í mér djúpstæða þrá eftir góðri heilsu. Reynsluleysi af heilsubresti hindrar mig þannig í því að setja orku í óskina. Svo getur reynsluleysi líka virkað á hinn bóginn. Ég hef t.d. aldrei verið nógu greind til að byggja sjálfsmynd mína á gáfnafari svo þótt það væri út af fyrir sig góð hugmynd að vera svolítið klárari, finn ég ekki fyrir neinni knýjandi löngun í meiri gáfulegheit.

Og svo er það trúin sem mig skortir. Mig langar t.d. að vera ung og fögur að eilífu en trúi því hreinlega ekki að æskugaldur virki betur en bótox og óskir uppfyllast ekki nema maður trúi á möguleikann.

Það sem ég þrái heitar en umberanlegt karlmenni og trúi á að geti ræst, (fyrir utan fullkomið heimili) er eftirtalið:
-Að vita strákana mína hamingjusama en þar sem óskirnar eru bara handa mér myndi ekki virka að óska einhvers handa öðrum.
-Ofboðslega mikið af peningum en þá mun ég fá hvort sem er.
-Að þurfa aldrei að gera neitt sem mér finnst ekki beinlínis skemmtilegt en þegar ég eiganst höllina verð ég hvort sem er orðin nógu rík til að gera það sem mér bara sýnist.
-Ýmislegt sem er á mínu eigin valdi svosem 8 tíma samfelldur svefn, stinnari rass og stærri brjóst og vinir sem leggja stund á uppbyggilegri afþreyingu en að sjúga í sig krabbameinsstöngla.
-Fullt af hlutum sem byggjast á helvítis helling af peningum, svosem almennileg tölva, árskort í leikhúsin og Salinn, uppþvottavél og föt sem passa á mig.

Djísús! Það er að renna upp fyrir mér hversvegna ég á ekki maka. Ég meina, ef uppþvottavél og árskort í Borgarleikhúsið er ofan á forgangslistanum þá getur þessi löngun mín í karlmenni varla flokkast sem verulega djúpstæð þrá.

Auglýsi hér með eftir tillögum um ósk til að setja í steininn.

Best er að deila með því að afrita slóðina