Orkusteinar

-Rosalega er góður kraftur í þessum steinum, maður finnur alveg strauminn frá þeim, sagði konan og kreisti jaspis svo hnúarnir hvítnuðu.
-Hvernig straum? spurði barnið.
-Þetta er orkusteinn. Finndu, finnurðu ekki kraftinn frá honum? svaraði móðirin og rétti barninu steininn.
Barnið horfði forviða á móður sína og mér fannst þetta satt að segja komið út í rugl.

-Sko, orkan er ekki í steininum sjálfum. Maður notar orkusteina sem tákn, til að hjálpa sér að nota sína eigin orku. Töfragripir hafa fyrst og fremst táknræna merkingu sjáðu til, sagði ég.

-Maður fær náttúrulega orku úr steinunum, þessvegna finnur maður straum frá þeim, sagði konan og virtist móðguð.
-Maður fær orku úr mat, leiðrétti ég. Steinninn er tákn sem þú notar til að hjálpa þér að beina orku þinni að ákveðinni hugsun.
-Ætlaðrðu að segja mér að þessi kraftur sem ég finn frá steininum sé bara eitthvað rugl í hausnum á mér?
-Galdur er fyrst og fremst það sem gerist í hausnum á manni, það er jafn raunverulegt fyrir það og mér finnst það ekkert rugl.
-Ertu á móti því að ég kaupi þennan stein?
-Nei, ég vil endilega að þú kaupir þennan stein en ég vil ekki að þú haldir að þú getir fitnað af honum.

Þá skellihló konan. Út gekk hún með tvo orkusteina, annan handa barninu sem horfði ráðvillt á steininn og langaði greinilega miklu meira í áhyggjubrúðu.

Púkinn á fjósbitanum dinglaði halanum og glotti.
-Þú ert ekki sérlega góður sölumaður er það? sagði hann og ég velti mínum eigin orkusteini í hendi mér. Fann engan straum svo ég fékk mér bara rauðan Magic.

Best er að deila með því að afrita slóðina