Hugskeyti

Í gamla daga notaði fólk helgarnar til að dýrka guðinn sinn og það hefur ekkert breyst. Fór bæði í Smáralind og Kringluna í gær og á báðum stöðum var allt troðfullt af heittrúuðum Mammónsdýrkendum.

Hitti fullt af fólki sem ég kannast við, m.a. hina mölétnu konu Ljúflingsins. Hún brosti stirðlega. Sá á henni langar leiðir að tilvist mín fer í taugarnar á henni. Hún veit af mér. Það heitir opið samband og virkar rosalega val þar til makinn opnar líka sín megin.

Æ hafðu ekki áhyggjur. Ég er engin ógn við samband ykkar. Það byggist á gagnkvæmri kúgun og er í eðli sínu ólíkt þeirri vináttu sem ég á við manninn þinn. Hann gæti aldrei búið með konu sem sýnir honum virðingu og tillitssemi og krefst þess sama frá honum. Slíkar konur eru bara til í ævintýrum og fólk verður að upplifa ævintýri af og til.

Og þú sem mætir mölétin til Mammonsmessu en setur mölkúlur í ferðatöskurnar þínar og tekur fram varalit í flugvélinni á leið til Hvergilands. Heldurðu virkilega að hann viti ekki um ævintýrin þín?

Eða eru það kannski hugmyndir mínar um réttlæti Mammons sem fara fyrir brjóstið á þér? Ertu hrædd um að ég neyði Ljúflinginn til að horfast í augu við aðstöðu þína til að féfletta hann? Hefurðu áhyggjur af því að ég svipti þig tækifærinu til að hagnast án fórna?

Gjugg í borg. Allt hefur sinn verðmiða. Mammon líka.