Maður má smakka eitt

Í búðinni var aðeins einn viðskiptavinur fyrir utan mig. Hann leit út fyrir að vera um sextugt og lifa á saltketi og rjóma. Ég hefði sennilega ekkert tekið eftir honum nema vegna þess að hann stóð við sælgætisbarinn og gúllaði í sig.

Ég talaði ekki við hann, enda ekki í mínum verkahring að upplýsa aðra kúnna um hefðir í viðskiptaháttum en kannski hefur mér orðið það á að sýna svipbrigði sem lýstu undrun. Allavega vatt hann sér að mér og sagði með fullan gúlinn af hlaupi og brjóstsykri; ég smakka nú alltaf á þessu áður en ég kaupi það, maður verður að vita hvað maður er að kaupa.
-Jáhá, sagði ég vantrúuð.
Maður má það alveg. Maður má alveg smakka eitt, sagði maðurinn og tróð upp í sig lakkrís.
-Já er það virkilega? Ég vissi það ekki, sagði ég.

Ég hafði eiginlega verið að hugsa um að kaupa eitthvað en hætti við. Hann notaði ekki áhöldin og þótt fólk sé sjaldan eitrað var einhvernveginn eins og mig langaði ekki í neitt lengur. Ekki heldur þótt ég hefði þarna fengið formlegt leyfi til að smakka eitt, þá væntanlega eitt af hverri tegund.

Best er að deila með því að afrita slóðina