Galdur

Ég held að gæfugaldurinn sem ég framdi á ákveðnum ungum manni fyrir ca 7 mánuðum hafi haft tilætluð áhrif. Allavega lítur áran hans ekki lengur út eins og hann sé að veslast upp innan frá og hann er þegar búinn að taka tvö af þeim þremur örlagaríku skrefum sem þarf til að hann nái þeim árangri að lifa sæmilega innihaldsríku lífi. Mér sýnist hann vera tilbúinn í það þriðja. Verst hvað trúin þvælist fyrir honum. Eins og reyndar flestum.

Hér með kunngjörist:

Það er EKKERT yfirnáttúrulegt við galdur. Galdur byggist á lögmálum sem raunvísindamenn hafa ekki sýnt mikinn áhuga ennþá en eru samt sem áður jafn náttúruleg og lögmál orsakar og afleiðingar. Allir beita galdri einhvertíma á lífsleiðinni og þeir sem hafa náð góðum tökum á þeirri list njóta meiri velgengni en aðrir. Engir guðir eða djöflar koma þar nálægt, ég er helst á því að þetta snúist mest um sálfræðileg lögmál en ég get ekki skýrt það nánar.

Auðvitað eru sumar galdrauppskriftir óttalegt bull, rétt eins og margar vísindalegar tilraunir leiða aðeins í ljós hvað það er sem virkar ekki. Misheppnaðar galdrakúnstir afsanna ekki virkni galdurs fremur en misheppnaðar vísindatilraunir afsanna lögmál orsakar og afleiðingar en rétt eins og ósönnuð vísindi er samhengi galdursins tilgáta og ekkert annað.

Það er fullkominn misskilningur að þeir sem nota galdur þurfi endilega að gera ráð fyrir einhverjum yfirnáttúrulegum mætti og þótt ég noti orðið galdur meira í samræðum en ég hef áður gert er ég samt sem áður nákvæmlega jafn trúlaus og ég hef verið hingað til og hef engan grun um framhaldslíf, fyrri líf eða himnadraug sem kippir í spotta ef maður smjaðrar fyrir honum.

Maðurinn setur sér reglur af því að það er praktíst.
Maðurinn ber sjálfur ábyrgð á lífi sínu og gjörðum.
Maðurinn er það sem hann gerir.