Hverjum skyldi það vera að kenna?

-Hann er nú meiri drulludelinn að hlaupast svona undan ábyrgð, dæsti Dramatíkin  greinilega reiðubúin að hefja langar og innihaldsríkar samræður um vammir og skammir náungans.

-Ekki nenni ég að ergja mig á því. Hann er alveg að hamast við að refsa sjálfum sér og ef hann snýr ekki við blaðinu verður hann bláfátækur lúser það sem eftir er ævinnar, svaraði ég.
Hún þagði smá stund -og það er sko ekki líkt henni, sagði svo með tortryggni í rómnum:
-Lagðirðu kannski líka bölvun á mig? Er það þessvegna sem ég er að missa sjónina?

Ég hló. Hefði getað tryggt mér aðalhlutverk í kvikmynd gerðri eftir einhverri Íslendingasögunni með þeim hlátri.
-Nei, það hefur nú reyndar ekki hvarflað að mér að sóa dýrmætri orku minni til að slá þig blindu. En hefurðu nokkuð velt því fyrir þér hversvegna þú ert orðin svona feit? sagði ég myrkum rómi.
-Ertu að segja að þú hafir fitað mig með galdri? sagði hún og gætti nokkurs óöryggis í röddinni.
-Heldurðu það? spurði ég í véfréttartón. Eða heldurðu kannski að þú berir ábyrgð á því sjálf? Heldurðu kannski að þú hafir bara étið á þig spik af klárri græðgi og stjórnleysi?

Æ, þetta er ljótt. Maður á ekki að vera að rugla svona í vesalingi sem þráir ekkert heitar í lífinu en að fá að leika hlutverk fórnarlambsins til enda. En hvernig á maður svosem að svara öðru eins? Sorrý Stína en það þarf mikinn tíma og flókinn galdur til að eyðileggja sjón annarrar manneskju. Ég hef yfirdrifið nóg annað við tímann að gera og þú ert ekki þess virði að ég sói honum í að eyðileggja líf þitt. Það muntu hvort sem er örugglega sjá um sjálf.

Hins vegar getur vel verið að ég markaðssetji verndargaldurinn minn gegn hinu eilífa fórnarlambi og nefni hann eftir þér. Hann gæti t.d. heitað Mæða. Ég er nefnilega eiginlega tilneydd til að gera eitthvað ponkulítið tíkarlegt svo þú fáir stöku sinnum eitthvað nýtt til að mæðast yfir.

Best er að deila með því að afrita slóðina