Gæludýrapæling

Eftir nokkra klukkutíma legg ég af stað til systur minnar sem býr í útlandinu, að vísu ekki í bleikum kastala en allavega í loftkastala. Hef ekki séð hana í heilt ár og það er alltof langur tími því hún er ein þeirra fágætu sálna sem ættu að vera á launum fyrir að vera yndislegar.

Sonur minn tröllavinurinn ætlar að halda matarboð fyrir nokkra aðra tröllavini að mér fjarstaddri og segir mér svo hugur um að mannaþefur verði í helli mínum fram yfir páska. Ég bind þó vonir við að matgæðingurinn verði búinn að taka til í herberginu sínu þegar ég kem aftur og helst vildi ég að hann yrði líka búinn að verða sér úti um silkiterríer með bleika slaufu. Vera má að það séu meiri óþrif af smáhundum en kærustum en ef hvolpur fæðist yrði einfaldara að takast á við foreldra kjölturakkans en kærustunnar. Mamma Sykurrófunnar þolir ekki tröllavininn og ég býð ekkert í vesenið ef þau taka upp á því að fjölga mannkyninu.

Ég hef aldrei átt smáhund og er að vona að sonur minn fái sér einn svo ég geti kynnst svoddan kvikindi án þess að bera ábyrgð á því. Ég átti reyndar einu sinni stóran íslenskan hund. Á sama tíma átti ég lítinn, mjúkan mann og hann fór ekki nærri eins mikið úr hárum og hundurinn. Hann hljóp heldur aldrei geltandi á eftir köttum sem verður líka að teljast kostur og þegar hann stakk af lokaði hann á eftir sér en það gerði hundspottið ekki. Á hinn bóginn kom hundurinn alltaf aftur.

Ég er annars að verða vitlaus á þessari eilífu ástleitni Leníns. Hann hreinlega lætur mig ekki í friði. Er stöðugt að róta í hárinu á mér, narta í augnlokin og tísta í eyrun á mér. Hann reynir m.a.s. að elta mig á klósettið. Fyrir nú utan óþrifin af þessu. Það verður reyndar að viðurkennast að það kemur fyrir að Pysjan þrífur eftir hann óbeðinn. Engin hætta á að það fari fram hjá manni því til að tryggja að maður taki eftir afrekunum snýr hann nokkrum af postulínsbrúðunum mínum til veggjar þegar hann er búinn að þurrka af. Versta helvíti hvað páfagaukar lifa lengi og jafnvel þótt hafi komið fyrir að við gleymum að loka glugga, virðist hann ekki haldinn minnsta votti af því karlmennskuheilkenni að láta sig hverfa.

Váá

Hlutirnir þróast stundum á annan hátt en maður ætlaði. Þegar ég hóf þessa sápuóperu ákvað ég að hafa bara tengla á þá sem koma við sögu og annað sem ég sjálf skrifa. Það hefur ekki alveg gengið eftir og ég er komin að þeirri niðurstöðu (allavega í bili) að þessi stefna mín sé alls ekki sniðug nema þeir sem koma við sögu bloggi eins og vindurinn.

Ég hef haft tengla á annað efni frá mér en hef ekki hugmynd um hvort einhver les það en auk þess hef ég ekki verið dugleg að uppfæra þær síður. Ákvað að taka þá tengla út en setja þá frekar inn aftur þegar er eitthvað nýtt að sjá þar. Halda áfram að lesa

Skrýtið

-Myndirðu flokka það sem pervasjón að bíta? spurði Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni.
-Ætli það fari nú ekki eftir samhenginu. Það er tiltölulega saklaust að natra í öxlina á konunni þinni með upplýstu samþykki hennar en ef þú t.d. stundar það að koma aftan að gömlum körlum í Kringlunni og glefsa grimmdarlega í rassinn á þeim, þá ertu að ofbjóða velsæmiskennd annarra og svoleiðis gerir maður ekki. Halda áfram að lesa

Vinur minn næringarfræðingurinn

-Hvort ætti ég að hafa bakaðar kartöflur eða franskar? sagði ég.
-Það fer eftir því hvort þú vilt að börnin þín nái fertugu eða hvort þér finnst þrjátíu og fimm ára alveg nóg, sagði Endorfínstrákurinn og bætti því við að ef hann tæki einhverntíma þá ákvörðun að svipta sig lífi, ætlaði hann að gera það með því að vera í mat hjá mér í 3 vikur. Halda áfram að lesa

Uppfinningamaðurinn kom í heimsókn

Uppfinningamaðurinn kom í heimsókn í dag, með konfekt. Þar með eru báðir vinnuveitendur mínir búnir að gefa mér konfekt á sama sólarhringnum. Ætli sé í gangi samsæri um að fita mig?

Fékk upphringingu frá eldgömlum elskhuga sem bað mig um að lesa fyrir sig próförk. Það kom mér ekki á óvart. Átti von á að hann færi að hafa samband hvað úr hverju. Hef ekki fengið handritið afhent ennþá en hef á tilfinningunni að feli í sér einhverskonar skilaboð. Þótt við eigum ekkert óuppgert. Sumt fólk verður alltaf á einhvern hátt hluti af lífi manns líkt og uppistöðuþáttur í vef. Maður getur skipt út efni, lit og mynstri en allt sem maður spinnur við líf sitt vefst um þessa sömu, fáu þætti sem ráða örlögum manns. Það er tilgangslaust að hafa skoðun á þeim og útilokað að klippa þá frá.

Afsakið

Mér hefur víst orðið þokkalega á í messunni þegar ég skrifaði <a href=“http://reykjavikurdrama.blogspot.com/2005/03/um-stur-tjningarheftingar-lesenda.html#comments“>þessa færslu</a>. Mér fannst eitthvað fyndið við svona öfugmælafærslu þar sem ég hélt því fram einhver mesti orðhákur bloggheima þyrði líkast til ekki að svara mér, kallaði Ástþór Borgþór (sem opinberlega hefur lýst andúð sinni á útgáfunni á Betu Blogg) laumusápuóperufíkil, gerði vammlausustu konu sem ég þekki að laumuperra og hélt því fram að Björn Bjarnason birtist reglulega á tröppunum hjá mér með blóm og súkkulaði.

Þetta var nú bara hugsað sem húmor frá minni hálfu en í dag var mér sagt að einhverjir hefðu tekið þessu alvarlega. Og þótti þetta víst bara ekkert fyndið. Ég hélt reyndar að þeir sem á annað borð lesa þessa klámsíðu mína hefðu áttað sig á því að stundum tala ég ekki af mikilli alvöru og skil ekki að nokkrum geti dottið í hug að manneskja sem skreytir bloggsíðu sína með fjölskyldumyndum og kökuuppskriftum sé nokkuð annað en heiðvirð húsmóðir eða að ég hafi persónulegt samband við dómsmálaráðherra. En jæja, einhverjir tóku þessu víst hátíðlega og sé mér því ekki annað fært en að lýsa allt sem stendur í umræddri færslu ábyrgðarlaust bull og bið hér með alla hlutaðeigandi afsökunar.

Ég held að gagnrýnandinn í mér sé vanstilltur

Borgarleikhúsið er vinur minn. Gaf mér frímiða á Draumleik. Við Spúnkhildur fórum í gær og það var dásamlegt. Svo fékk ég líka pakka og það var líka dásamlegt. Ég er annars að pæla í því hvort ég sé kannski óttalegur hálfviti á sviði leikhúss. Ég er búin að sjá helling í vetur og mér hafa þótt allar þessar sýningar góðar. Misfrábærar að vísu en engin sem ég hef ekki notið. Er ekki eitthvað að ef vantar í mann gagnrýnandann? Eða standa leikhúsin sig bara svona geypilega vel?

Hmmm… ég er allavega ekki í neinum vandræðum með að gagnrýna Arnald. Er sokkin í þá lágkúru að lesa bókina með því hugafari að finna sem mest af hallæri. Venjulega hendi ég bók frá mér ef mér leiðist hún í 3.ja kafla en nú læt ég eymingja Arnald næra í mér illkvittnina. Ég er ekkert spennt yfir sögunni en er orðin rosalega spennt yfir því að sjá hverju honum tekst að klúðra næst. Verst hvað ég á erfitt með að skammast mín fyrir að hugsa svona. Það er náttúrulega ekkert í lagi.

2

Eftirfarandi gullkorn er frá syni mínum Byltingamanninum.

Sko! Til skamms tíma leit út fyrir að Helvíti yrði brátt eini staður veraldarinnar þar sem maður gæti búist við að finna ósnortna náttúru. En nú eru svo margir virkjanasinnar komnir þangað að þeir eru örugglega búnir að virkja hvern einasta hver og hvert einasta eldfjall í Vítii.

Játa áhrifagirni

Ég játa á mig áhrifagirni og fordóma. Mig langaði ekkert sérstaklega að sjá Öxina og jörðina, fór aðallega af því að Haukur hafði áhuga. Ég sé hins vegar ekkert eftir því að hafa farið. Þetta er aldeilis stórfín sýning og legg ég til að þeir gagnrýnendur sem hafa rakkað hana niður og áreiðanlega dregið úr aðsókn, taki dóma sína og troði þeim upp í Þjóðleikhúsið á sér.

Þetta átti að heita lokasýning en þar sem hefð er fyrir aukasýningum og allra síðustu sýningum er ekki útilokað að enn gefist tækifæri. Verði svo hvet ég alla leikhússunnendur til að mæta.

Vitjun

Svolítið framandlegt að vera hér aftur. Eftir öll þessi ár. Leggja bílnum í stæðið við hliðina á stæðinu sem eitt sinn var stæðið mitt. Það er búið að skipta um útidyrahurð og gólfteppi en gömlu hjónin með púddelhundinn sem dó búa enn á 2. hæð og einstæða móðirin (sem ég frétti seinna í kvöld að sé ekki lengur einstæð) á þeirri 3.ju.

Ganga upp stigann og snerta vegginn sem ég hallaði mér upp að á meðan ég kyssti svo sætan og skemmtilegan mann hálftíma áður en ég lokaði augunum og lifði það af, árið sem Keli var í Albaníu. Áfram upp á 4. hæð, næstum eins og heimsækja sjálfan sig nema ég fer ekki alla leið að mínum dyrum. Halda áfram að lesa

Belgíska Kongó

Við Pysjan fórum að sjá Belgíska Kongó í kvöld. Drottinn minn dýri hvað ég skemmti mér vel. Átti von á góðu en þetta var alveg óborganlegt. Ætlaði reyndar að eyða laugardagskvöldinu með stráknum en Sigrún bað mig að vinna með sér á laugardagskvöldið svo ég samdi við hann um að við færum frekar í leikhús í kvöld og að þeir Snorri gætu þá verið saman á laugardagskvöldið. Hann var hæstánægður með það og ég verð að segja að ég er fegin því annars hefði ég líklega misst af þessu frábæra stykki. Bara ein sýning eftir og ég hvet alla til að fara á lokasýninguna.

Heldurðu að ég viti ekki hvað ég er að gera?

Pysjan er kominn með leyfi til æfingaaksturs. Finn hvernig ég breytist í teiknimyndafígúru um leið og hann rykkir af stað. Finnst eins og hárið á mér sé vírbursti, augun glennast ósjálfrátt upp og ég yrði ekki hissa þótt kæmi í ljós að þau séu fest í tóttirnar með gormum, munnurinn hrepist saman og ég hreinlega ræð ekki við röddina, æpi upp þvert gegn ásetningi mínum þegar hann, svellkaldur, lætur sig vaða inn í hringtorg þvert fyrir ljósgráan Pajero, hreinan og með virðuleg jakkaföt við stýrið. Ég hef ekki orðið svona hrædd síðan ég sat í bíl með Borghildi systur minni síðast. Halda áfram að lesa

Bréf frá ömmu

Jæja skrattakollur

Þá er amma nú búin að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þú fáir enduruppeldi, ekki veitir af. Ég geri mér að vísu ekki vonir um að þú verðir húsum hæfur alveg á næstunni en ef við náum þeim árangri að þú opnir glugga til að lofta út þegar þú ert búinn að kúka svona mikið í buxurnar þínar, þá er stórum áfanga náð.

Þetta verður semsé þannig að næst þegar þú skítur yfir annað fólk, ætlar góða konan að koma og láta þig þrífa bjakkið. Það verður ekkert sérlega skemmtilegt svo þú ættir kannski að æfa þig svolítið í almennri kurteisi. Annars gætirðu þurft að moka út heilum fjóshaug eftir nokkrar vikur og góða konan getur orðið voða ströng. Þú gætir líka unnið þér inn stig með því að senda síðasta fórnarlambi skriflega fyrirgefningarbeiðni.

Við skulum svo bara vona að þér gangi vel að læra þína lexíu því annars verður amma að sækja vöndinn. Og því get ég lofað að þá verður skrattanum ekki skemmt.

Komin niður

Held ég sé að koma niður af þessu vellíðunarflippi sem ég hef verið á undanfarið. Ekki svo að skilja að mér líði neitt illa. Meira svona hlutlaust. Eða frekar svona eins og ponkulítið eirðarleysi sé að byrja að springa út innra með mér. Mér leiðist eitthvað svo og skýringin er ekki sú að mig vanti félagsskap eða hafi ekkert að gera. Mig langar bara að hitta einhverja aðra en þá sem eru í boði og gera eitthvað annað en það sem liggur beinast við. Veit samt ekki hvað. Svo langar mig í phenylethilamin, heilt kíló en vil samt ekki þurfa að gúlla í mig 10 kg af súkkulaði. Halda áfram að lesa

Skýrsla

Mig langar í hreindýr. Eyddi öllum morgninum í að þrífa en nú er ég líka búin að skila sameigninni og er laus við hana næstu 6 vikurnar. Þegar ég varð þrítug sagði ég að ég hefði sett mér það markmið að vinna engin heimilisstörf eftir fertugt, nema þá að elda þegar og ef mig sjálfa langaði til þess. Setti upp plan; ætlaði að eignast heimilistæki, eitt á ári, fyrst þurrkara og svo eitt af öðru og enda á heindýri.

Síðan hefur mest lítið gerst í þeim efnum. Hef ekki ekki einu sinni fjárfest í hrærivél. Ég er að hugsa um að breyta planinu, hlaupa yfir græjurnar og fara beint í hreindýrið. Vera búin að fá mér hreindýr áður en ég þarf að sjá um sameignina næst.

Sá lokaæfinguna á Patataz í dag. Átti reyndar von á góðu þar sem Björn stórvinur minn og skrifnautur er annarsvegar en svo virðist sem allir aðrir sem koma að sýningunni séu líka hæfileikafólk svo útkoman er tvímælalaust þess virði að sjá hana tvisvar. Tók Kára minn með og við erum svo búin að hanga yfir kaffibolla síðan.

Bréf til Dramusar

Sæll Dramus

Ég á reyndar ekkert óuppgert við neinn en taldi nokkuð víst að Dramus væri „sumir“. Tek þessu sem yfirlýsingu um að svo sé ekki. Þar sem þú hefur ekki kynnt þig ætla ég ekki að biðjast forláts á þeim misskilningi en skal hugleiða möguleikann á því að yrkja eitthvað fallegra til þín þegar og ef þú stingur nefinu út úr skápnum.

Ólíkt töluðum orðum er hægt að breyta því sem maður skrifar inn á bloggið en ég ætla nú samt ekki að eyða síðustu færslu eða breyta henni. Ef ég gerði það stæðu skrif mín ekki undir nafninu sýndarveruleikaraunsæi.

Óður til Dramusar

Þetta eru í hjörðum þínar kýr og ær
að þekja með lambaspörðum eða dellu
hverja þá slóð sem hörð er fæti nær.

Saur hef ég vaðið áfram síðan þá
og samt hef ég út á hlaðið skóna borið
og hirði ekki um aðra, hvað þeir segja og sjá.

Og veðrið er blítt og þú ert engin þruma
og þessvegna hugsa sumir lítt um suma.