Uppfinningamaðurinn kom í heimsókn

Uppfinningamaðurinn kom í heimsókn í dag, með konfekt. Þar með eru báðir vinnuveitendur mínir búnir að gefa mér konfekt á sama sólarhringnum. Ætli sé í gangi samsæri um að fita mig?

Fékk upphringingu frá eldgömlum elskhuga sem bað mig um að lesa fyrir sig próförk. Það kom mér ekki á óvart. Átti von á að hann færi að hafa samband hvað úr hverju. Hef ekki fengið handritið afhent ennþá en hef á tilfinningunni að feli í sér einhverskonar skilaboð. Þótt við eigum ekkert óuppgert. Sumt fólk verður alltaf á einhvern hátt hluti af lífi manns líkt og uppistöðuþáttur í vef. Maður getur skipt út efni, lit og mynstri en allt sem maður spinnur við líf sitt vefst um þessa sömu, fáu þætti sem ráða örlögum manns. Það er tilgangslaust að hafa skoðun á þeim og útilokað að klippa þá frá.

Best er að deila með því að afrita slóðina