Afsakið

Mér hefur víst orðið þokkalega á í messunni þegar ég skrifaði <a href=“http://reykjavikurdrama.blogspot.com/2005/03/um-stur-tjningarheftingar-lesenda.html#comments“>þessa færslu</a>. Mér fannst eitthvað fyndið við svona öfugmælafærslu þar sem ég hélt því fram einhver mesti orðhákur bloggheima þyrði líkast til ekki að svara mér, kallaði Ástþór Borgþór (sem opinberlega hefur lýst andúð sinni á útgáfunni á Betu Blogg) laumusápuóperufíkil, gerði vammlausustu konu sem ég þekki að laumuperra og hélt því fram að Björn Bjarnason birtist reglulega á tröppunum hjá mér með blóm og súkkulaði.

Þetta var nú bara hugsað sem húmor frá minni hálfu en í dag var mér sagt að einhverjir hefðu tekið þessu alvarlega. Og þótti þetta víst bara ekkert fyndið. Ég hélt reyndar að þeir sem á annað borð lesa þessa klámsíðu mína hefðu áttað sig á því að stundum tala ég ekki af mikilli alvöru og skil ekki að nokkrum geti dottið í hug að manneskja sem skreytir bloggsíðu sína með fjölskyldumyndum og kökuuppskriftum sé nokkuð annað en heiðvirð húsmóðir eða að ég hafi persónulegt samband við dómsmálaráðherra. En jæja, einhverjir tóku þessu víst hátíðlega og sé mér því ekki annað fært en að lýsa allt sem stendur í umræddri færslu ábyrgðarlaust bull og bið hér með alla hlutaðeigandi afsökunar.

Best er að deila með því að afrita slóðina