Vinur minn næringarfræðingurinn

-Hvort ætti ég að hafa bakaðar kartöflur eða franskar? sagði ég.
-Það fer eftir því hvort þú vilt að börnin þín nái fertugu eða hvort þér finnst þrjátíu og fimm ára alveg nóg, sagði Endorfínstrákurinn og bætti því við að ef hann tæki einhverntíma þá ákvörðun að svipta sig lífi, ætlaði hann að gera það með því að vera í mat hjá mér í 3 vikur.-Fjölskyldunnar vegna er bara svo miklu huggulegra að fá hjartaáfall, sagði hann og hryllti sig þegar Darri bætti mæjonesdollu í körfuna.

-Á hverju lifir hann eiginlega? spurði Haukur mig, eftir einn fyrirlesturinn um tilraunir mínar til að drepa gesti og gangandi með því að kveikja á kertum (vaxgufa á víst að vera banvæn) og bjóða upp á kaffi og súkkulaði.
-Allavega ekki saltkjöti og kleinum, sagði Darri.

-Sennilega fiski og soðnu grænmeti, eftir holdafarinu á honum að dæma, sagði ég sem þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar til að troða í hann mat, hef aðeins einu sinni á síðustu 4 árum, fengið hann til að kroppa aðeins í pastarétt og einu sinni tókst mér að koma ofan í hann grænum frostpinna.

Næst þegar hann kemur elda ég grænmetisrétt. Sem ég stend yfir pottunum kemur hann fram í eldhús, virðir herlegheitin fyrir sér og segir svo:
-Blómkál og brokkoli. Hverjum ætlarðu að refsa?

Best er að deila með því að afrita slóðina