Lilith

-Veistu dálítið, þú ert ekki skráð sem Eva í gemsanum mínum, sagði hann sposkur á svip.
-Nú? Heldur hvað?
-Lilith. Af því að þú ert miklu frekar Lilith en Eva.

Ég hlýt að hafa orðið skrýtin á svipinn, bæði vegna þess hve mikið það kom mér á óvart að hann þekkti goðsögnina um Lilith en kannski ekki síður vegna þess að Keli sagði nákvæmlega það sama fyrir nokkrum mánuðum.

-Hver sagði þér söguna af Lilith? spurði ég og ekki laust við að ég fyndi til afbrýði. Það er í mínum verkahring að segja þessum dreng sögur.
-Enginn. Ég las hana sjálfur á netinu, laug hann sem aldrei hefur lesið stafkrók án praktísks tilgangs.
-Og hvað áttu við með því að ég sé líkari Lilith en Evu?
-Eva var flott en hún var sköpuð til þess að vera undirgefin. Lilith var hvorki sköpuð úr rifi Adams né handa honum. Hún var jafningi hans og þessvegna þurfti trúin að losa hann við hana.
-Þetta var fallega sagt hjá þér og þú ert í alvörunni vitur, sagði ég.

-Takk, sagði hann, þú elskar mig líka.

Best er að deila með því að afrita slóðina