Vitjun

Svolítið framandlegt að vera hér aftur. Eftir öll þessi ár. Leggja bílnum í stæðið við hliðina á stæðinu sem eitt sinn var stæðið mitt. Það er búið að skipta um útidyrahurð og gólfteppi en gömlu hjónin með púddelhundinn sem dó búa enn á 2. hæð og einstæða móðirin (sem ég frétti seinna í kvöld að sé ekki lengur einstæð) á þeirri 3.ju.

Ganga upp stigann og snerta vegginn sem ég hallaði mér upp að á meðan ég kyssti svo sætan og skemmtilegan mann hálftíma áður en ég lokaði augunum og lifði það af, árið sem Keli var í Albaníu. Áfram upp á 4. hæð, næstum eins og heimsækja sjálfan sig nema ég fer ekki alla leið að mínum dyrum.

Skrýtið. Þessi ár sem ég hef þekkt hann hefur aldrei verið drasl heima hjá honum nema hellingur af bjórdósum og flöskum. Aldrei óhreint leirtau. Aldrei þvottur í haug í sófanum. Aldrei óhrein föt og handklæði á baðgólfinu. Bara dósalager Sorpu á eldhússborðinu og óhreinn öskubakki í stofunni. Ekkert annað.

Eftir 2 bjóra frá komu minni (veit ekki hversu mikið hann var búinn að drekka áður) er hann enn ekki farinn að horfa í augun á mér. Heldur uppi kumpánlegum samræðum með augun límd við sjónvarpið þótt ég viti að hann sé í rauninni ekki að horfa á það, talið ekki einu sinni á. Best að gefa greyinu tíma. Láta hann drekka einn enn. Að lokum slakar hann á.
-Mér er kalt, segir hann, hniprar sig saman í sófanum og stingur tánum undir lærið á mér. Kannski á ég að bjóðast til að hlýja honum.

Tölum aðeins um kuldann en ég finn að það kemur í minn hlut að brjóta ísinn. Hef líklega gert hann óöruggan með þessari löngu þögn. Strýk fótlegg varlega, sköflung, kálfa og upp á kné. Eftir smástund áræðir hann að svara í sömu mynt. Ég finn hvað hann er að hugsa: Hvað tengir tvær mannverur sem sitja í hnipri í sófa og strjúka fótleggi eins og af tilviljun, í hálftíma eða meira, án þess að talast við, án þess að horfast í augu?
-Bara það að við erum bæði apaungar, svara ég upphátt.
-Apaungar?
-Það þýðir að þetta er ekkert persónulegt, svara ég og ólíkt Manninum sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni reynir hann ekkert að botna í merkingu orðanna, skilur bara einhvernveginn að honum er óhætt og leggst út af og bíður þess sem verða vill.

Ég veit að þegar hann byrjar að hvísla, þegar hann er ekki lengur hræddur við að horfa í augun á mér, þegar hann þrýstir mér að sér af þessum ákafa, er hann að hugsa um konuna sem hann saknar. Konuna sem hann drakk frá sér.
-Ég drakk hana ekkert frá mér. Ég bara reið hana frá mér á fylliríi, hefur hann margoft sagt og það er tilgangslaust að ræða fyrirbærið afneitun við þann sem er raunverulega í afneitun.

-Hvenær heyri ég frá þér aftur? segir hann þegar ég fer.
-Þú kannt á síma er það ekki?
Vandræðalegt jú og ég veit að ég er aftur búin að gera hann öryggislausan. Hafði víst ekki mikið upp á sig síðast þegar hann hringdi. Hann er aftur orðin fjarrænn, límir augun við sjónvarpsskjáinn. Fylgir mér samt til dyra og faðmar mig að skilnaði, svo fast að ég finn hvað hann er að hugsa. Er með sektarkennd af því að hann trúir því ekki alveg að ég sé jafn mikill apaungi og hann sjálfur. Það er líka rétt hjá honum. Ég er ekki lengur apaungi. Ég er kötturinn sem fer sínar eigin leiðir en hann, eins og 80% mannkynsins, hefði frekar valið hund.

Svo hverf ég út í hina myrku frumskóga Breiðholtsins, dálítið sakbitin yfir því að skilja hann eftir sakbitinn en veit að það er tilgangslaust að ræða tilgangsleysi sektarkenndar við þann sem vantar bara einhvern til að hengja skömm sína á. Ég get víst verið sá snagi ef það er það sem hann vill.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Vitjun

Lokað er á athugasemdir.