Gæludýrapæling

Eftir nokkra klukkutíma legg ég af stað til systur minnar sem býr í útlandinu, að vísu ekki í bleikum kastala en allavega í loftkastala. Hef ekki séð hana í heilt ár og það er alltof langur tími því hún er ein þeirra fágætu sálna sem ættu að vera á launum fyrir að vera yndislegar.

Sonur minn tröllavinurinn ætlar að halda matarboð fyrir nokkra aðra tröllavini að mér fjarstaddri og segir mér svo hugur um að mannaþefur verði í helli mínum fram yfir páska. Ég bind þó vonir við að matgæðingurinn verði búinn að taka til í herberginu sínu þegar ég kem aftur og helst vildi ég að hann yrði líka búinn að verða sér úti um silkiterríer með bleika slaufu. Vera má að það séu meiri óþrif af smáhundum en kærustum en ef hvolpur fæðist yrði einfaldara að takast á við foreldra kjölturakkans en kærustunnar. Mamma Sykurrófunnar þolir ekki tröllavininn og ég býð ekkert í vesenið ef þau taka upp á því að fjölga mannkyninu.

Ég hef aldrei átt smáhund og er að vona að sonur minn fái sér einn svo ég geti kynnst svoddan kvikindi án þess að bera ábyrgð á því. Ég átti reyndar einu sinni stóran íslenskan hund. Á sama tíma átti ég lítinn, mjúkan mann og hann fór ekki nærri eins mikið úr hárum og hundurinn. Hann hljóp heldur aldrei geltandi á eftir köttum sem verður líka að teljast kostur og þegar hann stakk af lokaði hann á eftir sér en það gerði hundspottið ekki. Á hinn bóginn kom hundurinn alltaf aftur.

Ég er annars að verða vitlaus á þessari eilífu ástleitni Leníns. Hann hreinlega lætur mig ekki í friði. Er stöðugt að róta í hárinu á mér, narta í augnlokin og tísta í eyrun á mér. Hann reynir m.a.s. að elta mig á klósettið. Fyrir nú utan óþrifin af þessu. Það verður reyndar að viðurkennast að það kemur fyrir að Pysjan þrífur eftir hann óbeðinn. Engin hætta á að það fari fram hjá manni því til að tryggja að maður taki eftir afrekunum snýr hann nokkrum af postulínsbrúðunum mínum til veggjar þegar hann er búinn að þurrka af. Versta helvíti hvað páfagaukar lifa lengi og jafnvel þótt hafi komið fyrir að við gleymum að loka glugga, virðist hann ekki haldinn minnsta votti af því karlmennskuheilkenni að láta sig hverfa.

Best er að deila með því að afrita slóðina