Innkaup

Ég er með vott af stórmarkaðafóbíu. Kemst svosem alveg í gegnum Bónus á föstudegi án þess að fríka út en líður alltaf eins og einhver ægileg ógn sé í nánd. Reyndar hef ég komið mér sem mest undan verslunarferðum síðustu tvö árin en þá sjaldan að ég neyðist til að fara í búð breytir það ótrúlega miklu fyrir mig að hafa einhvern með mér. Halda áfram að lesa

Gjafalisti

Óli Gneisti er með dálítið sniðugt á vefsíðunni sinni. Lista yfir allt sem hann langar í. Þetta gerir fólki sem ætlar að færa honum gjöf auðvitað mun auðveldara fyrir. Ég hef oft byrjað á svona lista sjálf en þar sem mér dettur ekkert í hug nema framlög til líknarmála, bílaþvottur eða smurþjónusta gefst ég alltaf upp. Mitt fólk tekur mig nefnilega ekki alvarlega þegar ég nefni það sem virkilega gleður mig. Halda áfram að lesa

Tilbrigði

Tristan litli þvertekur fyrir að kunna bókmenntastórvirkið Búddi fór í bæinn og Búddi fór í búð. Hann söng hinsvegar fyrir mig með sama lagi, Batmann fór í bæinn. Og reyndar líka með svipuðu lagi; Kertasníkir fór til kanínu.

Mörg stig

Ég vissi alveg að ég væri búin að kynnast besta manni sem ég hef nokkurntíma orðið hrifin af en lengi getur best bestnað. Hann bauðst til að strekkja fyrir mig viftureimina í sjálfrennireið minni og það þótti mér vænt um. Ég las smávegs fyrir börnin og lék við þau á meðan en fór svo niður í bílskúr til að sjá hvernig verkinu miðaði. Nema hvað, hann var þá langt kominn með að þrífa gripinn í þokkabót. Mér finnst ekkert leiðinlegra en að þrífa bíla og það hefur enignn gert neitt svona fyrir mig áður.

Ekki nóg með það. Ég ætlaði að sýna þá lágmarks viðleitni að tæma uppþvottavélina en hann var þá búinn að því líka. Ekki veit ég hvernig það gat gerst án þess að ég tæki eftir því.

Hversu fokking demit æðislegur getur einn maður verið?

Húslestur

Miriam er dugleg að læra íslensku. Smábarnabækurnar hafa reynst vel. Hún er búin að lesa Stubb og Láka, Kol litla og bókina um litina og nú er hún að lesa Stúf. Haukur virðist hafa alveg jafn gaman af að láta lesa fyrir sig eins og þegar hann var fjögurra ára.

Kurteisi

Takk fyrir komuna, sagði Tristan litli þegar þau voru að fara heim í gærkvöld.

Minnir mig á það þegar Keli og Lindita komu með telpurnar sínar í búðina til mín. Emma fékk litla brúðu og þegar ég rétti henni hana sagði hún -segðu takk. Vel uppalin börn fá snemma á tilfinninguna hvenær er viðeigandi að sýna kurteisi, þótt nákvæm útfærsla á reglunni komi ekki alveg strax.

Ég vaknaði ekki fyrr en hálf tólf í dag en nú er ég líka að verða úthvíld. Miriam var rétt í þessu að færa mér kaffibolla. Yndislegt.

Allt með sykri og rjóma

Matur. Meiri matur. Grilljón pakkar og svo fleiri.

Afi og Miriam sitja í sófanum og lesa saman prinsessubókina sem Tara fékk í jólagjöf.
Darri og Walter liggja á hnjánum á gólfinu og leika sér fallega að „brautalestinni“ hans Tristans litla. Tara, sem hefur annars einokað Miriam allt kvöldið leikur sér með þeim og hérna kemur litli stubbur akandi nýja vörubílnum sínum inn í eldhús.

Haukur kemur af vaktinni um miðnætti. Gúllar í sig bæði humarsúpu og kjöti í tilefni dagsins. Tara loksins orðin svöng en hvorugt barnanna kom miklu niður um sexleytið og Haukur sker handa henni væna flís af feitum sauð. Ég þeyti meiri rjóma.

Jól.

Fullkomið

Ég á fullkomið heimili (nema stofuborðið mitt er bilað en Pegasus ætlar að laga það í fyrramálið þvi hann er svo góður lagari) og fullkomin börn (fullorðin + uppkomin = fullkomin?) Við ætlum að halda jól með fjölskyldu Walters, nota heimilið hans og siðina okkar. Ég fór til Walters til að útbúa möndlugrautinn og krydda kjötið, svo allt sé nú nákvæmlega eftir mínu höfði, og þegar ég fór að heiman var all subbulegt jólaföndur í vinnslu. Ég var að vísu búin að segja þeim að ég vildi að allt yrði fullkomið þegar ég kæmi heim og ég vissi að þau myndu taka til og allt það en ég reiknaði samt ekki með því að það yrði eins og ég hefði gert það sjálf.

Fæturnir á mér eru skælandi af þreytu en nú er ég komin í frí og það er svo fínt heima hjá mér að ég tími varla að fara að sofa.

 

Blessað frelsið

Mig langar að jóla.

Mig langar að búa til konfekt og baka smákökur. Mig langar að bjóða vinkonum mínum í toddý og piparkökur. Mig langar á jólatónleika og fara með börn í bæinn til að kíkja skraut og jólasveina. Mig langar að búa til jólakort og flottar greniskreytingar. Og eldspýtustokkadagatal handa litlum börnum. Mig langar að strauja jóladúk og þvo gluggana og þrífa eldhússskápana að innan þótt þess þurfi ekki. Ég hef alltaf gert eitthvað af þessu en aldrei eins mikið og ég hefði viljað. Halda áfram að lesa

Smotterí

Dag eftir dag upplifi ég sömu senuna.

Viðskiptavinur: Mig vantar einhverja ægilega sniðuga gjöf.
Nornin: Þá ertu á réttum stað því hér fást eingöngu sniðugir hlutir. Hvað má ég sýna þér? Heillagripi? Galdra? Tarotspil?
Viðskiptavinur: Ég veit það eiginlega ekki, bara eitthvað svona almennt. Það er fyrir vinkonu mína.
Nornin: Gott og vel. Hvað má það kosta?
Viðskiptavinur: Ekkert mikið sko. Þetta á bara að vera algjört smotterí. Halda áfram að lesa

Mínus

Synir mínir virðast álíta að ef ég fer frá heimilinu í miðri tiltekt, þá feli það í sér dulin skilaboð um að það sé alger óþarfi að ganga frá nokkrum hlut eftir sig. Þeir ganga þokkalega um (þ.e.a.s. stofuna og eldhúsið, ekki herbergin sín) ef ég fer frá öllu gjörsamlega tip top en tveir óhreinir bollar í vaskinum og dagblað á stofuborðinu er nóg til þess að virkja sóðagenið. Halda áfram að lesa

Þvílík heilbrigðisþjónusta

Móðir mín var gráti næst þegar ég kom upp á spítala í morgun. Klukkan var orðin 9 og hún var búin að biðja um ákveðið magalyf frá kl 5 um morguninn en hafði bara fengið eitthvað ódýrt samheitalyf sem virkar ekkert á hana.

Hún fékk lyfið sem hún bað um á meðan ég stoppaði. Samt beit ég engan. Ég hefði samt gert það ef ég hefði þurft. Það er nefnilega staðreynd að ef hlutirnir ganga ekki eins og þeir ættu að gera þá er gott ráð að verða bara gjörsamlega snarvitlaus.

Þetta var oft svona svipað þegar amma var sem veikust. Hún fékk þá þjónustu sem hún þurfti loksins þegar aðstandendur komu í heimsókn.

26 sinnum

Áhyggjubrúðurnar mínar eru um 7 cm langar. Þær hafa býsna oft komið mér að góðum notum, sérstaklega í aðstæðum sem maður ræður ekkert við sjálfur. Eins og óveðri.

Í nótt svaf ég eins og steinn á meðan Walter fór út til að hirða upp mænishlífina sem fauk af húsinu hans. Með töluverðum látum skilst mér. Ég sem vakna ef laus þakrenna slæst við húsið.

Ég hef eignast áhyggjubrúðu sem er meira en 180 cm á hæð. Ef geta brúðunnar til að bera áhyggjur helgast af stærðinni, merkir þetta að ég mun framvegis hafa 26 sinnum minni áhyggjur. Ekki svo að skilja að verulegar áhyggjur þjaki mig í daglegu lífi en það er gott að sofa hjá töfragrip. Sérstaklega ef hann heldur utan um mann á meðan maður er að sofna.

Svonasvona

-Æ, þú hefðir nú bara átt að hringja og láta mig sækja þig, sagði hann og horfði á mig eins og ég væri dverghamstur eða kandýfloss. Hann kallaði mig samt ekki dúllu. Hann er svo vel upp alinn.

-Ég var hálfskelkuð sagði ég. Ekki svo viti mínu fjær af hræðslu að ég þyrfti að láta passa mig. Ég er stór stelpa veistu. Hef áratuga reynslu af því að sofa í mínu eigin rúmi, svaraði ég.

Ég hljómaði samt ekki eins truntulega og ætla mætti því ef ég á að segja alveg eins og er varð mér hugsað til hans í verstu hviðunum. Mér líður ennþá eins og fellbylur sé að bresta á en hef ekkert óveður mér til afsökunar. Þarf að vinna fram eftir í kvöld og má ekkert vera að því að liggja í einhverri geðbólgu.

Stormur

Getur verið að sértæk jólaskrautsröskun sé ekki lengur almennt aðventuheilkenni? Eða hefur þol mitt gagnvart ofhlæði ósmekklegra ljósaskreytinga aukist? Ég verð allavega lítið vör við blikkljós og aðrar skreytingar sem ofbjóða fegurðarskyni mínu, finnst bara flest hús og garðar ósköp hófleg og huggleg.

Ég gæti nú best trúað að einhverjar ljósaseríur hafi fokið í nótt. Ég var satt að segja frekar skelkuð í mestu látunum og gekk á með martröðum það sem eftir lifði nætur. Ég er yfirleitt ekki svona veðurhrædd en það þarf ekki mikið til að koma mér úr jafnvægi þessa dagana. Það er ástaróbermið sem er að hvekkja mig. Tekur á taugarnar að eiga eitthvað til að missa.