Til mergjar

Allt vesen og dram í mannlegum samskiptum er runnið af einni eða fleiri af þremur rótum

-Því sem A segir og/eða gerir.
-Því sem A meinar eða meinar ekki með því sem hann segir og/eða gerir.
-Því hvernig B túlkar það sem A segir og/eða gerir.

Svo lengi sem huglestur er frekar sjaldgæfur hæfileiki munu dröm mikil gerast í samskiptum fólks, allavega af og til. Það er hægt að draga úr tíðni þeirra og eyðingarmætti á ýmsa vegu. T.d.

-Að forðast samneyti við A.
Kosturinn við þessa aðferð er sá að maður losnar við mikinn fjölda fávita úr lífi sínu og þar með slatta af sársauka, reiði, ótta og tilefnislitlu samviskubiti.
Gallinn er sá að allir segja og gera eitthvað sem manni líkar ekki svo það er hreinlega ekki hægt að gera þessa aðferð að reglu ef maður ætlar að lifa í mannlegu samfélagi.

-Að segja ekkert og gera ekkert nema meina eitthvað sérstakt með því.
Kosturinn er sá að þar með er lágmarks hætta á misskilningi.
Gallinn er sá að með því að temja sér þessa reglu myndi maður segja fátt og gera færra. Finnst einhverjum gaman að umgangast fólk sem kemur aldrei á óvart, sýnir fá svipbrigði og notar ekki kímni, háð og rósamál?

-Að temja sér að leggja aldrei neikvæða merkingu í neitt sem aðrir gera og segja nema hafa óyggjandi sönnun um að það hafi verið illa meint.
Kosturinn er sá að margir munu sækjast eftir félagsskap þínum.
Gallinn er sá að þeir sækja í félagsskap þinn af því að það er auðvelt að valta yfir þig. Auk þess er heimskulegt að ætla fólki alltaf hið besta og heimska er ekki kúl.

Þegar upp er staðið velta gæði samskipta annars vegar á því hversu vel manni tekst að láta öðrum líða í návist sinni, án þess að þurfa sjálfur að tipla á tánum til að styggja ekki neinn og hinsvegar á hæfileika manns til að túlka orð og gjörðir annarra.

Á mannamáli heitir þetta nú bara virðing og traust. Klisjur eiga sér oftast góðar ástæður.

Best er að deila með því að afrita slóðina