Gjafalisti

Óli Gneisti er með dálítið sniðugt á vefsíðunni sinni. Lista yfir allt sem hann langar í. Þetta gerir fólki sem ætlar að færa honum gjöf auðvitað mun auðveldara fyrir. Ég hef oft byrjað á svona lista sjálf en þar sem mér dettur ekkert í hug nema framlög til líknarmála, bílaþvottur eða smurþjónusta gefst ég alltaf upp. Mitt fólk tekur mig nefnilega ekki alvarlega þegar ég nefni það sem virkilega gleður mig.

Mér finnst næstum allt sem mér er gefið æðislegt. Ég meina í alvöru, ég verð glöð ef ég fæ sleif og þar sem er fremur einfalt mál að kæta mig en fátt sem mig vantar eða hef hugmyndaflug til að láta mig langa í, hef ég frekar talið upp það sem ég vil ekki. Það eru; ilmvötn (ég vil velja þau sjálf) skartgripir (ég týni þeim bara) skrautmunir fyrr heimilið (ég á nóg drösl og er auk þess sérvitur á það sem ég vil hafa í kringum mig) og fatnaður (því föt sem aðrir kaupa passa ALDREI á mig.)

Systkini mín gáfu mér æðislegan kjól um jólin (hann á víst að vera afmælisgjöf, en ég hef ekki gert neitt íþví að halda upp á það og geri það líklega ekki héðan af). Borghildur var margbúin að reyna að fá mig til að máta hann en ég vildi það ekki af því að ég sá alveg að hann passaði ekki á mig, og sagði henni það. Það er enginn miði á honum, sem merkir líklega að hann sé keyptur í útlöndum. Ef ég á að geta notað hann þarf að gera of miklar breytingar á honum til að það svari kostnaði.

Ekki spyrja mig til hvers þau voru að þessu, þau höfðu enga ástæðu til að halda að ég gæti notað þennan kjól og vita vel að ég safna ekki fötum til að horfa á þau. En semsagt, ef einhver er á leið í Kolaportið þá má viðkomandi koma við hjá mér og sækja kjól sem passar á mjög litla konu með fyrirsætuvaxtarlag.

(Löngu síðar lét ég breyta kjólnum þannig að hann passaði. Hann er æði)

Best er að deila með því að afrita slóðina