-Æ, þú hefðir nú bara átt að hringja og láta mig sækja þig, sagði hann og horfði á mig eins og ég væri dverghamstur eða kandýfloss. Hann kallaði mig samt ekki dúllu. Hann er svo vel upp alinn.
-Ég var hálfskelkuð sagði ég. Ekki svo viti mínu fjær af hræðslu að ég þyrfti að láta passa mig. Ég er stór stelpa veistu. Hef áratuga reynslu af því að sofa í mínu eigin rúmi, svaraði ég.
Ég hljómaði samt ekki eins truntulega og ætla mætti því ef ég á að segja alveg eins og er varð mér hugsað til hans í verstu hviðunum. Mér líður ennþá eins og fellbylur sé að bresta á en hef ekkert óveður mér til afsökunar. Þarf að vinna fram eftir í kvöld og má ekkert vera að því að liggja í einhverri geðbólgu.