Mig langar að jóla.
Mig langar að búa til konfekt og baka smákökur. Mig langar að bjóða vinkonum mínum í toddý og piparkökur. Mig langar á jólatónleika og fara með börn í bæinn til að kíkja skraut og jólasveina. Mig langar að búa til jólakort og flottar greniskreytingar. Og eldspýtustokkadagatal handa litlum börnum. Mig langar að strauja jóladúk og þvo gluggana og þrífa eldhússskápana að innan þótt þess þurfi ekki. Ég hef alltaf gert eitthvað af þessu en aldrei eins mikið og ég hefði viljað.
Móðir mín var heimavinnandi húsmóðir. Hún fór hamförum á aðventunni til að hafa allt fullkomið. 12 smákökusortir, handsaumaður klukkusterngur, endalaust föndur, silfurpússun, veggjaþrif og geðveiki. Því miður hafði hún ekki sérstaklega gaman af neinu af þessu. Ég hef hinsvegar ánægju af eldhússdútli og öðru sem tengist aðventunni (öllu nema innkaupum og því að pakka inn jólagjöfum en síðara vandamálið hef ég leyst með instant umbúðum.) Kannski skiptir máli að ég tók þann pól í hæðina þegar ég varð ólétt af Hauki að á mínu heimili yrði fullkomnun jólahalds að hálfu leyti mæld í ánægjunni af undirbúningnum og hef þessvegna aldrei jólað mér til geðbólgu. Og þar stendur hnífur í kýrhausnum ég hef aldrei haft tíma til að leggja mikla vinnu í jólaundirbúning, eins og mig langar til þess. Ég gæti það með því að sofa bara fjóra tíma á nóttu en þá væri það heldur ekki gaman. Og tímaskorturinn er ekkert bara vegna þess að ég stend í verslunarrekstri. Þegar strákarnir mínir voru að alast upp var ég einstæð móðir á skítalaunum og þurfti alltaf að vinna einhverja yfirvinnu í desember eins og aðra mánuði ársins.
Kvenréttindabaráttan hefur vissulega skilað heilmiklu. Í dag á þessi eina kerling af fimmþúsund sem hefur áhuga á valdapoti t.d. kost á stjórnunarstöðum sem hún átti ekki mikinn möguleika á þegar móðir mín var ung. Við hinar, þessar fjögurþúsund níuhundruð níutíu og níu sem höfum engan áhuga á slíku, eigum hinsvegar sjaldnast kost á því að vera húsmæður. Það eru nefnilega ekki kvenréttindi að kenna börnunum kvæði, hugsa um blómin sín og steikja kleinur.
Við ætlum að skera laufabrauð í kvöld. Það er eina aðventuhefðin sem ég hef aldrei sleppt. Mér hefnist fyrir það í fyrramálið en Alexander ætlar að sjá um að standa í búðinni og lofa upp í ermina á mér í kvöld. Í fyrra seldust spábollar, tarotspil og galdrabrúðurnar hennar Önnu og það var svosem nógu mikið álag. Núna er það aðallega það sem ég bý til sjálf sem selst. Sem er gott af því að það skilar mestum hagnaði en slæmt að því leyti að það kostar mig tíma. Ég kom heim til mín klukkan hálf þrjú í nótt og var komin niður í þvottahús korter yfir sjö í morgun. Er eins og draugur núna, þoli svefnóreiðu svo illa. Ég hlakka samt til kvöldsins.
Já, ég sé að ég hef byrjað að skrifa þessa færslu kl . 10:09 í morgun. Núna er hún 14:10. Ég er ekki svona lengi að skrifa.
——————————–
Ansans að missa af þér í kvöld, jæja, hef næstu tvo daga til að kíkja á þig í knús og kröftugt te. 😀
Posted by: Gillimann | 20.12.2007 | 20:25:32
— — —
Mikið finnst mér gaman að heyra að nornadót selst vel um jólin. Svarið við kröfu um kvenkyns jólasveina er best svarað með nornum!
Ég myndi alveg vilja skreyta híbýli mín með Serafina Pekkala…
Posted by: Kalli | 21.12.2007 | 12:28:28
— — —
Og ég vil fá málfræðibók í jólagjöf 🙁
Posted by: Kalli | 21.12.2007 | 14:50:40